„Eins og að hitta gamla vini í fyrsta sinn”

Þetta er setning sem þú heyrir oft þegar þú tekur þátt í starfi Round Table en hún vísar í það að þó maður hittir ný andlit er eins og þú hafir þekkt viðkomandi í fleiri fleiri ár, oft ótrúlegasta fólkið og vinskapur sem endist langt út fyrir Round Table.

Round Table Ísland er fyrst og fremst stuðnings- og félagsnet fyrir karla en við látum alltaf gott af okkur leiða. Klúbbarnir taka flest þátt í minni samfélagsverkefnum í sínu samfélagi en á landsvísu reynir hreyfingin að styðja við ýmis verkefni og hefur verið gefið til málefna eins og Mottu Mars, Movember og frú Ragnheiði til að nefna nokkur dæmi.

Round Table á Íslandi var stofnað þann 5. september 1970. Það var snemma vors árið 1970 að nokkrir ungir menn hittust fyrir tilstuðlan Mats Wibe Lund. Hann hafði kynnst Round Table í Noregi hjá vinum og kunningjum. Hann varð hrifinn af hreyfingunni og fékk áhuga á því að stofna RT á Íslandi.

Tilgangur Round Table er að sameina unga menn úr mismunandi starfsgreinum til að öðlast betri skilning á þjóðfélaginu og stöðu einstaklingsins innan þess. Round Table er hreyfing en hið eiginlega starf á heima í svæðisbundnum og fámennum klúbbum (e. Tables) og saman mynda þeir þetta stóra hringborð. Félagar eru á aldrinum 20 til 45 ára og koma allstaðar að úr þjóðfélaginu með mismunandi bakgrunn. Það gerir þessa starfsemi svona sérstaka og einstaka.

Árið 2019 var byrjað að gefa út sérstaka þætti í hlaðvarpsformi. Mælum með að hlusta á fyrsta þáttinn en hann gefur innsýn inn í stofnun hreyfingarinnar árið 1927 og afhverju við erum eins og við erum.

Góðgerðamál eru einnig stór þáttur í starfinu. Erlendis er góðgerðamálum sinnt að miklu leyti á landsvísu en hér heima hafa góðgerðamálin verið unnin að mestu í klúbbunum. Hafa klúbbarnir styrkt að mestu málefni í heimabyggð hvort sem um stærri málefni er um að ræða eða einstakar fjölskyldur. Tilraun hefur verið gerð til að útfæra góðgerðamálin líka á landsvísu með stofnun Góðgerðaklúbbs OT og RT. Hefur hann hingað til að mestu sinnt verkefnum fyrir Frú Ragnheiði. Á heimsvísu eru ýmis málefni tekin fyrir og nýlega m.a. var byrjað að taka þátt í Movember en það verkefni er til að safna fyrir geðheilbrigði og krabbameinsmálefnum karlmanna, ekki ósvipað Mottu mars. Í einum hlaðvarpsþættinum er farið yfir góðgerðamálin og er hann mjög fróðlegur að hlusta á.

Starfið í Round Table er svo fjölbreytt að best er að upplifa þetta sjálfur. Ef þú ert á aldrinum 20 til 45 ára og ert með vinnu eða í námi hefur þú tækifæri til að taka þátt í starfinu. Það sem þú getur gert er:

  • Ef þú þekkir einhvern virkan Round Table mann heyrðu í honum, fáðu kynningu og óskaðu eftir að mæta á fund eða viðburð með honum

  • Skoðaðu kortið og athugaðu hvort það sé ekki klúbbur næst þér

  • Hafðu samband við okkur á facebook

  • Sendu okkur umsókn með því að fylla út í reitina hér að neðan