Siðareglur RTÍ

MARKMIÐ SIÐAREGLNA

Markmið siðareglna er að leiðbeina öllum meðlimum RTÍ hvernig ber að útfæra og fylgja lögum RTÍ.

MEÐFERÐ SIÐAREGLNA
1. Fulltrúaráð RTÍ getur eitt breytt texta siðareglna.
2. Breytingartillögu á siðareglu verður að skila til landstjórnar minnst fjórum vikum fyrir fulltúaráðsfund. Atkvæðagreiðsla ferð fram á næsta fulltrúaráðsfundi og nægir einfaldur meirihluti í kosningu.
3. Þegar breytingar eru gerðar á siðareglum taka þær gildi strax að loknum fulltrúaráðsfundi.
4. Umsjón með siðareglum og útgáfu þeirra hefur Landsstjórn RTÍ.

EINKUNNARORÐ RTÍ
Hugmyndin að einkunnarorðum Round Table er tekin úr ræðu prinsins af Wales á iðnaðarsýningu sem haldin var í Birmingham 1927, sem er stofnár hreyfingarinnar. Hann sagði meðal annars: „The young business and professional men of the country must get together ROUND the TABLE, ADOPT methods that proved sound in the past, ADAPT them to changing needs of the time and, whenever possible IMPROVE them“.
Stofnandi hreyfingarinnar fékk því bæði nafn hennar og einkunnarorð úr þessari gullnu setningu: „Ungir menn í viðskipta- og atvinnulífi þessa lands, verða að koma saman HRINGinn umhverfis BORÐIÐ, TILEINKA sér aðferðir, sem hafa áður reynst farsælar, AÐLAGA þær breytilegum þörfum nútímans og BÆTA þær hvenær sem það er mögulegt“.

ADOPT - ADAPT – IMPROVE
TILEINKA - AÐLAGA – BÆTA

TILGANGUR ROUND TABLE
Tilgangur Round Table er:
1. Að sameina unga menn úr mismunandi starfsgreinum til þess að öðlast betri skilning á þjóðfélaginu og stöðu einstaklingsins innan þess.
2. Að lifa eftir einkunnarorðunum í vináttu og samvinnu.
3. Að auka alþjóðaskilning og vináttu með aðild að RTI.

KYNNING HREYFINGARINNAR

KYNNING FYRIR NÝLIÐUM
Vanda þarf til verka þegar hreyfingin er kynnt fyrir nýliðum. Eftir að aðild nýrra félaga hefur verið samþykkt á fundi, skal formaður klúbbsins eða formaður útbreiðslunefndar halda stutta kynningu þar sem hann ræðir um RTÍ, hefðir klúbbsins og helstu grundvallaratriði starfsins, árgjöld og annað það er hann telur að komi hinum nýja félaga til góða. Munum að fyrsta reynsla nýrra félaga er gríðarlega mikilvæg fyrir alla hreyfinguna

KYNNING HREYFINGARINNAR ÚT Á VIÐ
Skipuleg kynning á Round Table hreyfingunni fyrir almenningi, hefur ekki verið mikið höfð í frammi, þrátt fyrir að ekki sé um leynilega félagsstarfsemi að ræða. Þó hafa komið fréttir frá einstökum atburðum, þar sem erlendra gesta hefur notið í ríkum mæli. Nota ætti slíka atburði svo sem samnúmeramót og fundi sem haldnir eru hér á landi, þ.á.m. EMA (Evrópumót) og NTM (Norðurlandafund), til að koma fram með kynningu á hreyfingunni. Við hæfi þykir að kynna hreyfinguna lítillega fyrir þeim gestum sem boðið er til fundar.
Þeir klúbbar sem starfað hafa að hjálparstarfi, hafa kosið að vinna sín störf án þess að þeirra sé getið á opinberum vettvangi. Hins vegar er landsstjórn í sjálfsvald sett að kynna hjálparstarf RT opinberlega sem eina heild.

NÝIR FÉLAGAR

FLUTNINGUR FÉLAGA
Ef félagi sem er meðlimur í klúbbi sem er tengdur RTI flytur á stað þar sem starfandi er klúbbur í RTI, getur hann eftir ábendingu orðið meðlimur í klúbbnum á hinum nýja stað jafnvel þótt fyrir séu tveir félagar í sömu starfsgrein og hann er fulltrúi fyrir.

FÉLAGI HÆTTIR
Félagi hættir í lok þess starfsárs klúbbsins, þegar hann nær 45 ára aldri. Miða skal við að meðlimir taki ekki að sér Formennsku klúbba og eða störf fyrir landsstjórn nái meðlimur ekki að klára sitt starf fyrir hreyfinguna innan aldursreglu RTÍ.

BROTTVÍSUN FÉLAGA
Brottvísun félaga ætti að vera það síðasta sem gripið er til og ætti ekki að beita henni nema allt annað þrjóti og sýnt þyki að viðkomandi hafi ekki getu til að tileinka sér þá mannkosti sem þarf til að geta starfað í RT.

STOFNUN NÝRRA KLÚBBA
Ef klúbbur vill standa fyrir stofnun nýs klúbbs, skal hann sækja um leyfi til landsstjórnar þar sem jafnframt komi fram hvernig að stofnun skuli staðið. Skal landsstjórn aðstoða móðurklúbbinn eins og hún best getur, t.d. með því að hlutast til um fundarefni og hjálpa til við útvegun á fyrirlestrum Þegar undirbúningur að stofnun er kominn það langt, að klúbburinn æski inntöku í landssambandið, skal senda allar nauðsynlegar upplýsingar, svo sem félagaskrá, til landsstjórnar. Álíti landsstjórn að klúbburinn sé hæfur til inntöku, skal hún senda umsóknina til fulltrúaráðsins til viðurkenningar. Slík umsókn skal hljóta afgreiðslu á fulltrúaráðsfundi.
Nýr klúbbur skal tekinn inn í hreyfinguna á “Fullgildingarhátíð” sem stofnað er til á árshátíð RTÍ. Nýi klúbburinn ætti að njóta aðstoðar móðurklúbbs síns (þess er stóð að stofnun hans) í hvívetna, sérstaklega þó í byrjun.

STÆRÐ KLÚBBS
Stærð klúbbs, þ.e. fjöldi félaga í hverjum klúbbi, er í lögum RTI sett að hámarki 30.
Eitthvað er misjafnt milli klúbba hver fjöldi félaga er, en meðvitað eða ómeðvitað hefur reynslan verið sú að fjöldi félaga er um 20, nokkrum fleiri eða nokkrum færri.
Þessi stærð þykir heppileg til þess að hinn almenni félagi geti tekið virkan þátt í fundunum. Einnig vegna nokkurra heimboða sem stofnað er til á hverjum vetri, svo sem formannsteitis, spilavista og fleiri slíkra góðra siða sem einstakir klúbbar hafa komið sér upp.

STJÓRN KLÚBBS

Í stjórn klúbbs eru:
1. Formaður, sem sér um daglegan rekstur klúbbsins. Hann boðar einnig til stjórnarfunda og skipuleggur þá. Einnig undirbýr hann og stjórnar yfirleitt klúbbfundum nema annað sé ákveðið.
Æskilegt getur verið að formaður hringi í þann sem á að hafa umsjón með, eða hefur framsögn á næsta fundi, í tæka tíð (nokkrum dögum fyrir fund), til að fullvissa sig um að félaginn sé tilbúinn með sitt.
2. Varaformaður, sem venjulega er kjörinn formaður næsta ár. Hann leysir formann af í hans forföllum. Hann annast þau verk sem venja hefur skapast um í hverjum klúbbi, svo sem að sjá um og skipuleggja sumarstarfið. Kjörgengir til varaformannsembættis eru allir félagar, en til að virða lög RTÍ um aldursmörk, er æskilegt að félagi sé ekki eldri en 42 ára er kosning fer fram þannig að hann eigi minnst eitt starfsár eftir í klúbbnum að loknu formannsstarfi. Einnig verða félagar að hafa verið virkir félagar í starfi í að minnsta kosti eitt ár.
Varaformaður hverju sinni er tengiliður klúbbs við ritstjóra RTÍ og ber hann ábyrgð á því að efni berist til ritstjóra hyggist klúbburinn birta grein á vefnum. Æskilegt er að hver klúbbur sendi a.m.k. eina grein til birtingar á vefnum á hverju starfsári.
3. Ritari, hans starf er að rita fundargerðir klúbbs og sjá til þess að þær séu birtar á vef klúbbsins. Ritari færir einnig mætingaskrá. Ætlast er til að hann skili fundargerðum til klúbbfélaga á næsta fundi eftir að fundargerðin er skrifuð eða geri hana aðgengilega öðrum klúbbfélögum á vefsvæði klúbbsins fyrir næsta fund. Ritari gegnir einnig störfum stallara, sé stallari ekki kosinn sérstaklega til embættisins. Stallari hefur umsjón með eigum klúbbsins og kappkostar viðhald þeirra og að þær spillist ekki í hans umsjá.
4. Gjaldkeri, sem sér um fjármál klúbbsins þannig að rekstraráætlun hans standist. Hann sér um innheimtu árgjalda klúbbsins, greiðslu reikninga og gerð rekstraráætlunar, þegar dagskrá vetrarins liggur fyrir.

STÖRF STJÓRNAR KLÚBBS
Fundargerð stjórnarfunda skal rituð í fundagerðabók og þar getið þeirra ákvarðana sem teknar eru og varða klúbbinn. Skýrslur stjórnar ásamt reikningum skulu vera aðgengilegar fyrir félaga.
Stjórn klúbbsins setur saman dagskrá næsta vetrar að vori, þannig að dagsetningar, að minnsta kosti, liggi fyrir á aðalfundi B. Fjárhagsáætlun klúbbsins skal liggja fyrir, ekki seinna en á fyrsta fundi haustsins.
Fráfarandi formaður getur mætt á stjórnarfundi, ef klúbbur kýs svo, en þó án atkvæðisréttar.

KLÚBBSTARFIÐ

Klúbbstarfinu má skipta í þrjá þætti:
1. Almennir fundir
2. Skemmtanir
3. Fjölskyldustarf

ALMENNIR FUNDIR
Almennir klúbbfundir eru haldnir í annarri hverri viku yfir vetrarmánuðina. Þeir skulu vera samkvæmt fyrirfram ákveðinni dagskrá sem er ákveðin í upphafi starfsárs og lögð fram á aðalfundi B, en starfsári lýkur þá. Síðasti fundur vetrarins er yfirleitt 1. fundur nýrrar stjórnar og venjulega haldinn í maí eftir aðalfund fulltrúaráðs en vetrarstarfið hefst svo í byrjun september. Fundarformið sjálft og dagskrá hvers fundar mótar hver klúbbur að mestu sjálfur en venja hefur skapast um eftirfarandi:

ÞRJÁR MÍNÚTUR
Svokallaðar “þrjár mínútur” ættu að vera fastur liður á hverjum almennum klúbbfundi. Tilgangur þeirra er að þjálfa félaga í að tjá sig. Þrjár mínútur eru t.d. þriggja mínútna erindi þar sem frummælandi úr hópi félaga heldur framsögu og kynnir mál sem honum er hugleikið. Hann heldur vel undirbúna (3 mín) framsögn um málið eða varpar fram vel valinni spurningu en hefur engu að síður undirbúið sig vel fyrir umræðuna. Fyrir fundinn er einnig hægt að afhenda einum félaga fyrirfram ákveðið efni sem hann fjallar um óundirbúinn. Aðrir félagar taka síðan málið til umræðu. Ætlast er til að hver félagi tali (með eða móti) sem næst þremur mínútum svo tilgangi þjálfunarinnar sé náð.

STARFSGREINAERINDI
Fastir liðir á dagskrá eru starfsgreinaerindi þar sem einn félagi kynnir starf sitt. Eitt til tvö erindi ætti að flytja á vetri. Erindið á að veita öðrum klúbbfélögum innsýn í starf hans og starfsaðstöðu. Oft er erindið haldið á vinnustað hlutaðeigandi eða að fyrirtækið er heimsótt. Sá sem erindið heldur ætti að kynna sjálfan sig þ.e. að fara í stuttu máli yfir menntun sína, gera grein fyrir í hverju starf hans er fólgið og hvernig fyrirtækið starfar.

GESTAFUNDIR
Fengnir eru gestir til að halda fyrirlestur eða ræða um ákveðin málefni sem félagar hafa áhuga á að kynnast, hvort sem um er að ræða dægurmál, fræðslu, listviðburði eða annað. Almennt er gert ráð fyrir að gesturinn gefi stutt yfirlit yfir málefnið en svari síðan fyrirspurnum. Hjá sumum klúbbum hefur verið hefð að bjóða mökum á einn slíkan fund á vetri.
Við hæfi er að kynna hreyfinguna lítillega fyrir þeim gestum sem boðið er til fundarins.

PONTUFUNDIR
Pontufundir eru fundarform sem hefur verið reynt og gefur tilbreytingu. Þá er nokkrum félögum gert skylt að tala með eða móti einhverju ákveðnu málefni í einhvern lágmarkstíma, t.d. 5 mínútur. Reiknað er með að undirbúningur hvers erindis sé nokkuð góður, því eftir hvert erindi er öðrum klúbbfélögum gefinn kostur að á andmæla frummælanda.

KYNNINGARHRINGURINN
Á hverjum þeim fundi þar sem viðstaddur er gestur skal viðhafa kynningarhring. Kynningarhringur er þegar hver félagi kynnir sig fyrir viðstöddum félögum og gestum, nefnir hann þá nafn sitt, aldur, starf, fjölskylduform (kvæntur, ókvæntur, í sambúð og fjölda barna).
Fundarstjóri byrjar venjulega kynninguna og er hún látin ganga hring umhverfis borðið þannig að fundarstjóri lokar hringnum með því að kynna gestinn. Góður siður er að hafa kynningarhring á hverjum fundi, meðan nýr félagi er að kynnast eldri félögum. Þá er kynningarhringurinn alltaf farinn á fulltrúaráðsfundum og er hann kjörið tækifæri fyrir ritara fundarins til að merkja við mætingu fulltrúa og skrá ef einhverjir þeirra eru með umboð.

SKEMMTANIR
Skemmtanahald er nokkuð öflugt og fjölbreytt. Bæði er um að ræða sameiginlegar skemmtanir klúbbanna og aðskildar á vegum einstakra klúbba. Haustfagnaður er haldinn í tengslum við fulltrúaráðsfund haustsins. Árshátíð er haldin í tengslum við aðalfund að vori. Sjá sérkafla.
Þá eru í tengslum við stærri sameiginlegar skemmtanir yfirleitt haldin heimboð, þar sem reynt er að blanda saman fólki úr mismunandi klúbbum til að auka tengsl félaganna.
Klúbbarnir standa sjálfir fyrir öflugu samkvæmislífi svo sem jólagleði, þorrablóti, spilakvöldum ásamt því að farið er í leikhús og menningaratburðir sóttir.

FJÖLSKYLDUSTARF
Þó að hreyfingin sé félagsskapur karla, þá hefur ætíð verið lögð rík áhersla á þýðingu fjölskyldunnar. Farnar eru ferðir eða annað, jafnt að sumri sem vetri, þar sem fjölskyldan er þungamiðjan.
Sumarstarf klúbbanna er nokkuð öflugt. Til dæmis hafa norðanklúbbarnir verið með sameiginlega útilegu síðan 1979 sem nú er að verða útilega ársins hjá öllum RT félögum hvar sem er á landinu.
Klúbbar í Reykjavík hafa farið gróðursetningarferðir í Heiðmörk, þar sem RT hefur sérstakan reit til umráða.
Veiðiferðir eru farnar og ýmsar aðrar útivistarferðir svo sem skíðaferðir og siglingar.
Jólatrésfagnaðir eru haldnir fyrir börnin, o.s.frv.

STARFSREGLUR KLÚBBS
Starfsreglur klúbba mótast af lögum og siðareglum RTÍ. Þar fyrir utan móta félagar og stjórn hvers klúbbs fyrir sig sínar eigin starfsreglur.
Til þess hafa þeir mikið sjálfstæði, vegna þess hvað lög RTÍ eru almennt orðuð. Þrátt fyrir að klúbbarnir hafi mikið svigrúm til að móta sínar eigin starfsreglur ber ávallt að túlka þær í samræmi við lög og siðareglur RTÍ.

AÐALFUNDIR KLÚBBS
Aðalfundur er æðsta ráð klúbbsins. Hann er haldinn í tveimur hlutum, A- og B-hluta. Fundarboð beggja fundanna skal senda félögunum ekki seinna en viku fyrir fundina eða afhenda þeim hana á næsta fundi á undan.
Hluti A er kjörfundur þar sem kosin er stjórn næsta starfsárs, þ.e. formaður, varaformaður, gjaldkeri og ritari. Fyrir fundinum skal liggja í það minnsta tillaga uppstillingarnefndar. Uppástungu uppstillingarnefndar skal senda með fundarboði á aðalfund A. Þá skal kjósa skoðunarmann reikninga, en hann væri æskilegt að kjósa til lengri tíma en eins árs í senn og sér hann þá um að samræmi sé í uppsetningu reikninga klúbbsins frá ári til árs.
Einnig skal klúbbur kjósa sér útbreiðslu- og uppstillingarnefnd. Telji stjórn klúbbsins þörf á fleiri nefndum er æskilegt að kosning fari einnig fram á þessum fundi, verði því við komið.
Þá eru sumir klúbbar farnir að kjósa sér embættismenn svo sem:
• Stallara sem sér um eignir klúbbsins og heldur utan um þær.
• Siðameistara sem sér um að siðir klúbbsins séu í heiðri hafðir. Hann skal og sjá til þess að klúbburinn haldi í heiðri lög og siðareglur RTÍ.
• Vefstjóra sem hefur umsjón með vefsvæði klúbbsins.
• IRO fulltrúa sem skal vera tengiliður klúbbsins við IRO landsstjórnar og fylgjast með því sem er að gerast í alþjóðlegu starfi og miðla því til klúbbfélaga.
Hluta B skal halda fyrir aðalfund RTÍ og þar fara fram stjórnarskipti. Formaður flytur skýrslu sína, gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga klúbbsins og formenn nefnda fara yfir störf nefnda. Þá leggur nýja stjórnin fram dagskrá næsta árs og drög að rekstraráætlun.

STJÓRNARSKIPTI
Stjórnarskipti fara fram á aðalfundi B eftir að dagskrá hefur verið tæmd. Ný stjórn tekur við með þeim hætti að fráfarandi formaður kallar nýkjörna stjórn upp og fram fer afhending embættisgagna í þessari röð: Fráf. siðameistari - siðameistari, fráf. ritari - ritari, fráf. gjaldkeri - gjaldkeri, fráf. varaformaður - varaformaður, fráf. formaður - formaður.

EMBÆTTISSKIPTI
Við embættisskipti afhendir fráfarandi formaður nýkjörnum formanni formannskeðjuna og nýkjörinn formaður nælir í fráfarandi formann orðuna “past chairman” (fyrrverandi klúbbformaður).

NEFNDASKIPAN

ÚTBREIÐSLUNEFND KLÚBBS
Í útbreiðslunefnd skal kjósa 3 menn. Útbreiðslunefnd skal gera áætlun um inntöku nýrra félaga. Nefndin skal hafa í huga að félagar séu úr óskyldum starfsgreinum. Að ekki ættu að vera fleiri en tveir félagar úr sömu starfsstétt í hverjum klúbbi. Sjá einnig “Inntaka nýrra félaga”.
UPPSTILLINGARNEFND KLÚBBS
Í uppstillingarnefnd skal kjósa 3 menn. Uppstillingarnefnd skal leggja fram tillögu um nýja stjórn og nefndir sem kjósa skal um á aðalfundi A samkvæmt lögum.
Uppástunga uppstillingarnefndar skal koma fram og sendast félögum minnst 1 viku fyrir fund, ásamt fundarefni og dagskrá.

AÐRAR NEFNDIR KLÚBBA
Stjórnin getur skipað nefndir fyrir sérstök mál, svo sem fjáröflunarnefnd o.fl. Nefndir skulu gefa skýrslu til stjórnarinnar, ef hún krefst þess.

ÁRGJÖLD KLÚBBA

REKSTRARÁÆTLUN
Kostnaður við starfrækslu klúbbanna er eingöngu borinn uppi af félagsmönnum sjálfum. Árgjöld eru miðuð við rekstraráætlun klúbbs og landsstjórnar en fast gjald fyrir hvern klúbbfélaga rennur til landsstjórnar. Fyrir nýja félaga sem byrja á haustönn greiðist hálft gjald til landsstjórnar en fyrir félaga sem byrja á vorönn greiðist ekkert fyrir yfirstandandi starfsár. Endanleg rekstraráætlun klúbbs skal liggja fyrir ekki seinna en á fyrsta fundi haustsins . Gjalddagar landsstjórnargjalda eru tveir. Fyrri hluti þeirra greiðist eigi síðar en 5. júlí og greiðist af þeim fjölda félaga sem gefinn er upp á fulltrúaráðsfundi í febrúar.
Seinni hluti landsstjórnargjalda greiðist fyrir fulltrúaráðsfund í febrúar og greiðist þá af þeim fjölda félaga sem gefinn er upp á fulltrúaráðsfundi í október. Auglýsingar í félagatali greiðast fyrir fulltrúaráðsfund í október.

ÚTGJÖLD
Helstu útgjöld klúbba eru; gjald til landsstjórnar fyrir hvern félaga sem er á félagaskrá, kostnaður við fundi og veitingar á þeim. Einnig hafa sumir klúbbar allan kostnað við skemmtanir inni í árgjöldum félaganna, sem hvetur til þátttöku.

FÉLAGASKRÁ

SKRÁNING
Stjórn klúbbs skal halda félagaskrá. Skal hún innihalda allar þær upplýsingar sem að gagni koma fyrir klúbbstarfið. Í félagaskrá ætti að koma fram: Nafn félaga, heiti þeirrar starfsstéttar sem hann er fulltrúi fyrir eins og það kemur fram á aðildarskjali, heimilisfang, póstnúmer, heimasími, farsími og tölvupóstfang. Ennfremur menntun, staða, vinnustaður og vinnusími ásamt starfstitli. Sé félagi kvæntur eða í sambúð skal tilgreina nafn maka.
Formaður sér um að tilkynna allar breytingar til landsstjórnar svo prentuð félagaskrá geti verið sem réttust er hún er gefin út. Hver klúbbur getur haft sína starfsgreinaskrá til að hafa reiður á fylltum og ófylltum starfsgreinum.

ÚTGÁFA
Landsstjórn skal ár hvert gefa út félagatal allra klúbba er aðild eiga að RTÍ og skal það tilbúið til dreifingar í síðasta lagi á öðrum fundi fulltrúaráðs RTÍ í október.

MÆTINGASKRÁ

SKRÁNINGAR
Ritari hvers klúbb skal skrá allar mætingar og fjarvistir félaga á fundum, sem fram koma í fundarskrá klúbbsins og öðrum fundum sem löglega er boðað til. Mæti félagi frá öðrum klúbbi skal hann tilkynna það skriflega til ritara klúbbs viðkomandi félaga. Slíkar mætingar eru skráðar sem fullgildar í mætingaskrá. Mætingaskrá skal senda landsstjórn skv. lögum RTÍ.

MÆTINGARSKYLDA
Þar sem klúbbarnir eru fámennir, er lögð rík áhersla á góða fundarsókn. Skal það vera markmið hvers félaga að hafa 100% mætingu, sjá starfsreglur um mætingarbikar. Tilkynna skal forföll eða seinkun fyrir fund. Hægt er að bæta sér fundamissi með því að sækja fund hjá öðrum klúbbi.
Félagsaðild félaga lýkur sjálfkrafa, ef fundasókn hans á starfsárinu hefur verið minni en 50 af hundraði, nema klúbbsstjórn telji afsökun hans góða og gilda.

UNDANÞÁGA FRÁ MÆTINGASKYLDU
Stjórnir klúbba RTÍ er heimilt, að beiðni félaga, að setja hann í leyfi frá mætingarskyldu séu nægjanlegar ástæður fyrir hendi, svo sem veikindi og tímabundnar annir. Félagi skal sækja um undanþágu þessa til stjórnar og veitist hún, þá skal fjarvist félagans ekki talin með í mætingaskýrslum klúbbsins. Veiti stjórn klúbbs félaga leyfi skal hann engin gjöld greiða til klúbbsins, en hálft gjald til landsstjórnar og skal í staðinn vera áfram á félagaskrá og fá send öll þau gögn er landsstjórn sendir hinum almenna félaga. Undanþága skal tilkynnt landsstjórn.

FUNDARSETA
Sérhver félagi sem ekki er viðstaddur að minnsta kosti 3/5 þess tíma, sem ætlaður er til fundarins sem hann sækir, skal teljast fjarverandi, nema með sérstöku leyfi stjórnar eða fundarstjóra.

FULLTRÚARÁÐ

STARFSSVIÐ FULLTRÚARÁÐS

Fulltrúaráðið er æðsta ráð RTÍ. Þar eru allar endanlegar ákvarðanir er varða RTÍ teknar, bæði stefnumarkandi og fjárhagslegar. Því ber að sjá til þess að allar samþykktir sem þar eru gerðar standist lög RTÍ og að sjálfsögðu íslensk lög. Fulltrúaráðið tekur óbeint ákvarðanir um það á hvaða erlenda fundi það sendir landsstjórn eða einstaka landsstjórnarmeðlimi, á kostnað RTÍ, með því að samþykkja eða skera niður fjárhæð þá er landsstjórn ætlar í erlent samstarf.

FUNDIR FULLTRÚARÁÐS
Forseti RTÍ skipuleggur fundina og sendir út dagskrá minnst þremur vikum fyrir fund. Fulltrúaráðið heldur minnst þrjá formlega fundi á ári auk aðalfundar, sem þó gerir aðeins þrjá fundardaga, því fyrsti fundur nýs fulltrúaráðs er haldinn samdægurs aðalfundi að vori. Annar fundur ráðsins er haldinn að hausti og skal hann fara fram fyrir 15. október, en þriðji fundur skal haldinn fyrir 15. febrúar og er það jafnframt kjörfundur. Aðalfundur er yfirleitt haldinn um mánaðamótin apríl/maí, sjá sérgrein. Fundum fulltrúaráðs er yfirleitt stjórnað af félaga úr þeim klúbbi sem sér um undirbúning fundarins en ekki formanni klúbbsins, til þess að hann sem fulltrúi hafi eðlilegt málfrelsi á fundinum.
Varaforseti er fundarritari og sér um að fundargerðin sé birt félögunum á löglegan hátt. Sé hann forfallaður skal formaður fulltrúaráðs útvega annan í hans stað og skal hann ekki vera fulltrúi á fundinum. Umsjónarklúbbur greiðir mat fyrir forseta og IRO-fulltrúa á öllum fulltrúaráðsfundum.

DAGSKRÁ FULLTRÚARÁÐSFUNDA
1. fundur fulltrúaráðs (strax á eftir aðalfundi)
Dagskrá fundar:
1. Fundur settur.
2. Tilgangur Round Table lesinn.
3. Kosning fundarstjóra.
4. Val fundarritara.
5. Lögmæti fundarins kannað/kynningarhringur.
6. Ávarp forseta.
7. Dagskrá landsstjórnar næsta árs borin upp.
8. Fjárhagsáætlun næsta árs borin upp.
9. Önnur mál.
10. Fundarslit.

2. fundur fulltrúaráðs (októberfundur)
Dagskrá fundar:
1. Fundur settur.
2. Tilgangur Round Table lesinn.
3. Kosning fundarstjóra.
4. Val fundarritara.
5. Andakt.
6. Lögmæti fundarins kannað/kynningarhringur.
7. Fundargerðir aðalfundar og 1. fulltrúaráðsfundar RTÍ bornar upp til samþykktar.
8. Ávarp forseta RTÍ.
9. Skýrsla IRO um erlenda fundi.
10. Yfirlit gjaldkera RTÍ.
11. Skýrslur formanna þverklúbba.
12. Framboð til landstjórnar: IRO, varaforseti og gjaldkeri.
13. Framboð til embættismanna landstjórnar: Vefstjóri, ritstjóri, verslunarstjóri og siðameistari.
14. Umsóknir um 2. fulltrúaráðsfund næsta starfsárs.
15. Önnur mál.

3. fundur fulltrúaráðs (febrúarfundur)
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Fundur settur.
2. Tilgangur Round Table lesinn.
3. Kosning fundarstjóra.
4. Val fundarritara.
5. Andakt.
6. Lögmæti fundarins kannað/kynningarhringur.
7. Fundargerð 2. fulltrúaráðsfundar borin upp til samþykktar.
8. Ávarp forseta RTÍ.
9. Skýrsla IRO um erlenda fundi.
10. Yfirlit gjaldkera RTÍ.
11. Skýrslur embættismanna RTÍ (vefstjóri, ritstjóri, verslunarstjóri) að hámarki 3 mínútur.
12. Skýrslur formanna klúbba, að hámarki 3 mínútur.
13. Kosningar til landsstjórnar: IRO, varaforseti og gjaldkeri.
14. Kosningar embættismanna landstjórnar:Vefstjóri,ritstjóri, verslunarstjóri og siðameistari.
15. Umsóknir um 3. fulltrúaráðsfund næsta árs.
16. Önnur mál.
17. Fundarslit.

ATKVÆÐAGREIÐSLUR FULLTRÚARÁÐS
Á fundum fulltrúaráðs hafa eingöngu atkvæðisrétt forseti RTÍ og tveir fulltrúar frá hverjum klúbbi, venjulega formaður og varaformaður. Forfallist annar hvor þeirra getur fulltrúinn sent félaga með skriflegt umboð sitt í sinn stað.
Á aðalfundi skal gjaldkeri gera grein fyrir, ef ágreiningur er við einstaka klúbba um gjöld eða greiðslustöðu þeirra við landsstjórn. Einnig ef klúbbar hafa ekki greitt árgjöld og önnur gjöld til landsstjórnar fyrir líðandi starfsár að fullu. Þá geta fulltrúar skuldugra klúbba gert grein fyrir máli sínu. Ef ágreiningur er um stöðu einstakra klúbba við gjaldkera skal hann geta þess í upphafi fundar, eða áður en til umræðu um reikningana kemur og ákveður þá fundurinn hvernig með það mál skuli farið. Geri gjaldkeri ekki athugasemdir á aðalfundinum skal litið svo á að uppgjör klúbba gagnvart landsstjórn sé í lagi.
REGLUR UM GREIÐSLUR ÞÁTTTAKENDA Á FULLTRÚARÁÐSFUNDUM
Hverjum klúbbi er skylt að greiða fyrir tvo fulltrúa á 2. og 3. Fulltrúaráðsfund RTÍ en fyrir þrjá fulltrúa klúbbs á 4. fulltrúaráðsfund/aðalfund RTÍ.
Upphæðin skal vera að hámarki 10.000 krónur fyrir hvern fulltrúa.
Gert er ráð fyrir því að klúbbar gangi frá þessum greiðslumálum sín á milli, en ef ágreiningur rís þá skal landsstjórn hafa úrskurðarvald í málinu og leysa úr ágreiningi milli aðila.
Eru þessar reglur til þess að klúbbar sem halda fulltrúaráðsfundi/aðalfundi RTÍ hafi eðlilegan rekstrargrundvöll vegna þess kostnaðar sem til fellur við slíka fundi, mæti hvorugur eða aðeins annar fulltrúi aðildarklúbbs RTÍ.

AÐALFUNDUR FULLTRÚARÁÐS

AÐALFUNDUR RTÍ
1. Fundarstjóri er venjulega félagi úr röðum þess klúbbs sem sér um fundinn.
2. Fundarritari er venjulega varaforseti.
3. Farinn skal kynningarhringur svo sem venja er.
4. Ársskýrsla landsstjórnar skal liggja fyrir skrifleg og skal einnig birt á heimasíðu RTÍ.
5. Gjaldkeri RTÍ kynnir fjárhagsstöðu hreyfingarinnar. Hann leggur fram til umræðu og samþykktar reikninga RTÍ. Stjórn RTÍ skal hafa yfirfarið og undirritað reikninga RTÍ skulu liggja fyrir skriflegir og endurskoðaðir. Þeir skulu þó hafðir eins einfaldir og hægt er, en þó ekki á kostnað þeirra upplýsinga sem á að vera hægt að lesa úr þeim. Með reikningum landsstjórnar skal fylgja sundurliðaðar skýringar á uppgjöri og staða reikninga eftirtalinna sjóða:
Staða sjóða: Ferðasjóður, Minningasjóður Tómasar Sigurðssonar, Skógræktarsjóðurinn
6. Ársskýrslur klúbbformanna.
7. Lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar RTÍ sendast landsstjórn frá klúbbi eða einstökum félagsmanni. Landsstjórnin getur einnig lagt fram tillögur um lagabreytingar. Landsstjórn skal leggja framkomnar tillögur fyrir næsta fulltrúaráðsfund til umfjöllunar. Skal hver klúbbur taka afstöðu til lagabreytinganna. Klúbbarnir verða að taka tillögur um lagabreytingar til meðferðar á næsta reglulega fundi eða kalla saman sérstakan fund. Allar framkomnar tillögur um lagabreytingar eða viðbætur við lög RTÍ skulu koma til endanlegrar afgreiðslu á aðalfundi fulltrúaráðs og þarf 2/3 hluta atkvæða til samþykktar.
8. Kosning skoðunarmanns reikninga.
9. Önnur mál. Þar er vettvangur fyrir mál sem einstakir félagar vilja ræða nánar og hafa undirbúið sig með. Ætlast er til að félagar séu stuttorðir og getur fundarstjóri takmarkað ræðutímann.
10. Stjórnarskipti.

FÁNASKIPTAFUNDUR
Fánaskiptafundur (Banner-lunch) er haldinn í hádegisverði samdægurs aðalfundi. Þar fer fram dagskrá er lýtur að starfi síðastliðins árs. Gagnkvæm fánaskipti klúbbformanna við fráfarandi forseta fara þar fram, svo og afhending verðlauna á vegum RTÍ, t.d. fjölgunar- og mætingabikurum og afhending styrks úr Ferðasjóði Round Table Íslands. Vilji klúbbformenn skipta formlega á keðjum utan aðalfundar síns klúbbs fer sú athöfn fram á þessum fundi. Þá fer að öllu jöfnu fram afhending tækifærisgjafa eða aðrar athafnir á vegum klúbba eða einstakra félaga á þessum fundi. Sé um einhver alveg “sérstök tilefni” að ræða þá fara þau fram á árshátíð. IRO-fulltrúinn hefur umsjón með fundinum og ákveður hann hvað kallast “sérstök tilefni”.
Til þátttöku er boðið öllum félögum RTÍ ásamt eiginkonum og einnig þeim erlendu gestum sem koma í tengslum við aðalfund.
Erlendum gestum er einnig gefinn kostur á að hafa þau fánaskipti sem þeir vilja og samrýmast reglum RTÍ um fánaskipti.

ÁRSHÁTÍÐ

FYRIRKOMULAG
Árshátíð RTÍ er haldin í tengslum við aðalfund hreyfingarinnar og má segja að þar sé hápunktur skemmtanahaldsins.
Þá fara fram á árshátíð skipti á embættistáknum landsstjórnar í þeirri röð sem tilgreind er í EMBÆTTISSKIPTI.
Orðuveitingar landsstjórnar fara fram á árshátíð undir umsjón siðameistara, sjá ORÐUR.
UMSJÓN ÁRSHÁTÍÐAR RTÍ OG LCÍ
Umsóknir skulu berast landsstjórnum beggja hreyfinga eigi síðar en á fulltrúaráðsfundi LC í október og 2. fundi fulltrúaráðs (októberfundinum) hjá RT starfsárinu áður.
Við val á umsjónaraðila með árshátíð RTÍ og LCÍ er reynt að koma því þannig fyrir að þeir klúbbar sem eru á merkilegum tímamótum, svo sem 5-10 ára afmælum, fái að halda hana.
Úthlutunarnefnd skal skipuð forsetum beggja hreyfinga ásamt einum fulltrúa frá þeim klúbbum sem skipuleggja árshátíðina að vori, úthlutunarnefndin skal gera grein fyrir ákvörðun sinni svo fljótt sem auðið er.
Forseta og maka skal ávallt boðið þeim að kostnaðarlausu. Einnig IRO fulltrúa og maka. Umsjónaraðilar skulu reikna með þessum kostnaði við skipulagningu árshátíðar.

LANDSSTJÓRN

KOSNING LANDSSTJÓRNAR
Kjörgengir eru allir félagar sem ná að ljúka kjörtímabili sínu innan aldursreglu RTÍ og skulu hafa verið virkir félagar að minnsta kosti síðustu 3 ár. Framboð skal tilkynna landsstjórn ekki seinna en 31. desember fyrir kjörfund og skal landsstjórn kynna framboðið ekki seinna en með fundarboði fyrir kjörfund. Kjörfundur er næsti fundur á undan aðalfundi. Kjósa skal varaforseta, IRO til tveggja ára og gjaldkera til tveggja ára. Einnig er æskilegt að fulltrúaráðið lýsi yfir stuðningi við varaforseta til forsetaembættis.

Siðameistari RTÍ skal fara yfir innsend framboð og tilkynna um lögmæti þeirra svo fljótt sem verða má.

STJÓRNARSKIPTI
Stjórnarskipti fara fram í lok aðalfundar.

EMBÆTTISSKIPTI
Ný landsstjórn tekur við með þeim hætti að IRO kallar nýkjörna stjórn upp og fram fer afhending embættistákna í þessari röð:
Fráf. gjaldkeri - gjaldkeri, fráf. varaforseti - varaforseti, fráf. forseti - forseti, fráf. IRO -IRO.

STARFSSVIÐ LANDSSTJÓRNAR

STÖRF FORSETA
Hans starf er að sjá um daglegan rekstur RTÍ. Boða til og skipuleggja fulltrúaráðs- og landsstjórnarfundi. Sjá um að fundargerðir fyrir landsstjórn og fulltrúaráð séu ritaðar og fundargerðir fulltrúaráðs séu birtar á heimasíðu RTÍ og sendar fulltrúum. Forseti heimsækir, eða sér til þess að fulltrúi frá landsstjórn heimsæki, hvern klúbb minnst einu sinni á ári. Forseti er fulltrúi RTÍ innanlands og utan.

STÖRF VARAFORSETA
Meðal starfa hans er að sjá um, í samvinnu við landsstjórn, að félagatal RTÍ komi út eigi síðar en á öðrum fundi fulltrúaráðs í október, með breytingum ef einhverjar eru. Varaforseti ber á ábyrgð á útgáfunni. Hann gerir rekstraráætlun fyrir næsta starfsár og aflar félagatalinu tekna, ásamt gjaldkera. Hann ritar fundargerðir. Varaforseta ber að halda góðu sambandi við varaformenn allra klúbba.

STÖRF IRO-FULLTRÚA
Í skipulagsskrá Round Table hreyfingarinnar annast IRO (International Relation Officer / Alþjóðatengslafulltrúi) um hin formlegu tengsl, hvort sem þau eru milli landsstjórna eða einstakra klúbba. Venjulega er IRO fulltrúinn RT félagi með einhverja reynslu af erlendu RT starfi. Hann birtir á heimasíðu RTÍ eða sendir með tölvupósti upplýsingar um erlend ferðaboð og helstu merkisatburði erlendis. IRO-fulltrúinn hefur umsjón með dagskrá fánaskiptafundar. Á erlendum fundum er IRO-fulltrúinn “hinn leiðandi” í samskiptum og gerðum.

STÖRF GJALDKERA/STALLARA
Hans starf er að halda utan um fjárreiður RTÍ og þ.m.t. að afla tekna fyrir félagatal og er ábyrgur gagnvart fulltrúaráði RTÍ. Hann skal einn varðveita og innheimta tekjur RTÍ og greiða reikninga þess. Geri aðrir það eru þeir ábyrgir gagnvart fulltrúaráði RTÍ og ber gjaldkeri ekki ábyrgð á athöfnum þeirra, nema hann hafi áður heimilað þeim bein afskipti af fjármálunum. Gjaldkeri gegnir jafnframt störfum stallara hreyfingarinnar og hefur umsjón með eigum hennar.

FUNDIR LANDSSTJÓRNAR
Fyrir utan hefðbundna stjórnarfundi situr landsstjórn eftirfarandi innlenda fundi: Heimsóknir á klúbbfundi hjá öllum klúbbum, minnst einn á vetri, þar sem landsstjórn gerir klúbbfélögum grein fyrir stöðu mála RTÍ.
Fulltrúaráðsfundi þar sem forseti er formaður fulltrúaráðs en varaforseti, gjaldkeri og IRO-fulltrúi sitja fundinn án atkvæðisréttar.
Erlendir fundir þar sem landsstjórn eða aðilar úr landsstjórn sitja sem fulltrúar RTÍ eru helstir: RTI, IRO, NTM, EMA.
Hverjir sitja hvaða fund kemur fram ár hvert í rekstraráætlun landsstjórnar í samþykki fulltrúaráðs.

STÖRF EMBÆTTISMANNA

SKOÐUNARMAÐUR REIKNINGA
Hans starf er að fara yfir reikninga RTÍ og athuga að farið hafi verið eftir samþykktri fjárhagsáætlun og að góðar reikningsskilavenjur séu í heiðri hafðar. Skoðunarmaður skal fá reikningana í hendur ekki seinna en tveimur vikum fyrir aðalfund og hann skilar þeim til gjaldkera ekki seinna en daginn fyrir aðalfund.

SIÐAMEISTARI
Fulltrúaráðið kýs siðameistara á 3. fundi fulltrúaráðs og tekur hann formlega við embætti á aðalfundi að vori. Fram að formlegri viðtöku embættis skulu hann og fráfarandi siðameistari starfa náið saman þannig að viðtakandi siðameistari geti kynnt sér embættisfærslur. Skal hann kosinn til tveggja eða þriggja ára, hann má endurkjósa til eins árs, sé hann kosinn til tveggja ára fyrst. Hann skal sjá um að rétt sé farið með lög og siðareglur RTÍ. Komi upp ágreiningur um túlkun laga RTÍ eða siðareglna skal hann vera úrskurðaraðili, þannig að það er skilyrði að siðameistari sé vel að sér í starfsemi hreyfingarinnar. Hann skal gæta þess að góðir RT-siðir séu viðhafðir á fundum og skemmtunum RTÍ. Einnig að sjá til þess að allar athafnir fari fram eftir reglum hverju sinni. Hann hefur rétt til setu á landsstjórnarfundum sem gestur. Hans starf er ekki að leika trúð, en hann má mjög gjarnan bregða á glens, þar sem það á við.
Ætlast er til þess að klúbbur sem halda á fulltrúaráðsfund, rukki ekki siðameistara um fundargjöld. Ef klúbbur rukkar siðameistara, getur siðameistari rukkað viðkomandi klúbb um sömu upphæð í sekt sem rennur til siðameistara. Siðameistari á rétt á einni síðu undir auglýsingar í félagatali Round Table Íslands, til að fjármagna ferðir sínar á fulltrúaráðsfundi. Verð á síðunni er samkvæmt verðskrá landsstjórnar hverju sinni.

RITSTJÓRI RTÍ
Fulltrúaráðið kýs ritstjóra RTÍ á 3. fundi fulltrúaráðs til tveggja ára í senn. Tekur hann formlega við embætti á aðalfundi að vori en fram að þeim tíma skal hann vinna náið með fráfarandi ritstjóra að efnissókn, uppsetningu og yfirferð á innsendum greinum á vefinn og kynna sér þannig þær aðferðir sem viðhafðar hafa verið við ritstjórnina. Ritstjóri RTÍ hefur rétt til setu á landsstjórnarfundum sem gestur.

VEFSTJÓRI RTÍ
Fulltrúaráðið kýs vefstjóra RTÍ á 3. fundi fulltrúaráðs til tveggja ára í senn. Tekur hann formlega við embætti á aðalfundi að vori en fram að þeim tíma skal hann vinna náið með fráfarandi vefstjóra. Vefstjóri er ábyrgðarmaður heimasíðu RTÍ, hann sér um að viðhalda henni ásamt uppfærslu á netfangaskrá RT félaga. Vefstjóri skal halda utan um kostnað vegna netsins. Hann hefur rétt til setu á landsstjórnarfundum sem gestur.

VERSLUNARSTJÓRI RTÍ
Fulltrúaráðið kýs verslunarstjóra RTÍ á 3. fundi fulltrúaráðs til tveggja ára í senn. Tekur hann formlega við embætti á aðalfundi að vori en fram að þeim tíma skal hann vinna náið með fráfarandi verslunarstjóra að sölu og innkaupum varnings verslunarinnar. Hlutverk verslunarstjóra er að sjá um innkaup og sölu minjagripa, fána og merkja RTÍ. Verslunarstjóra ber að vinna náið með gjaldkeri RTÍ og má hann ekki skuldbinda RTÍ fjárhagslega á neinn hátt nema með samþykki gjaldkera landsstjórnar. Verslunarstjóri RTÍ hefur rétt til setu á landsstjórnarfundum sem gestur.

ATKVÆÐAGREIÐSLUR LANDSSTJÓRNAR
Í landsstjórn er ekki æskilegt að atkvæðagreiðslur fari fram, heldur skal leitast við að komast að niðurstöðu sem allir geta sætt sig við. Í atkvæðagreiðslu þar sem ákvörðunin gildir fyrir yfirstandandi starfsár skal atkvæði forseta ráða. Sé þetta ákvarðanataka fyrir næsta starfsár skal atkvæði varaforseta ráða. Sé verulegur ágreiningur milli landsstjórnarmanna skal málinu vísað til fulltrúaráðs.

REKSTRARÁÆTLUN OG ÁRGJÖLD RTÍ

REKSTRARÁÆTLUN
Varaforseti gerir rekstraráætlun fyrir næsta starfsár ásamt gjaldkera þess árs. Rekstraráætlun er lögð fram á 1. fundi nýs starfsárs til samþykktar fulltrúaráðs.

TEKJUR
Helstu tekjur landsstjórnar eru árgjöld klúbba, sem reiknast eftir félagatölu þeirra á aðalfundi, sem og auglýsingatekjur í félagatali. Einnig skilar sala minjagripa ýmis konar, svo sem fána og merkja, einhverjum tekjum.

ÚTGJÖLD
Helstu útgjöld eru ferðakostnaður og útgáfa félagatals.

FARAREYRIR
Í rekstraráætlun skal taka tillit til farareyris eftirfarandi fulltrúa RTÍ áviðkomandi erlenda atburði.

NORRÆNN LANDSSTJÓRNARFUNDUR, NTM (NORDIC TABLERS MEETING):
Forseti, varaforseti, IRO-fulltrúi og gjaldkeri landsstjórnar.

AÐALFUNDUR EMA, EMATM (EUROPEAN, MEDITERRANEAN AND AMERICAN TABLERS MEETING)
IRO, forseti eða varaforseti.

AÐALFUNDUR RTI
Forseti og IRO-fulltrúi.

IRO’s MEETING
IRO-fulltrúi.

HEIÐURSFÉLAGAR

Fulltrúaráð getur útnefnt heiðursfélaga á fundi sínum. Útnefningin er æðsti heiður sem RTÍ getur veitt og getur sá aðeins hlotið sem hefur sérstaklega þjónað RTÍ.
Tilnefningu til heiðursfélaga skal koma skriflega sem trúnaðarmáli, til landsstjórnar og ræðir hún um hana sem trúnaðarmál. Ef allir landsstjórnarmeðlimir eru tilnefningunni samþykkir skulu þeir leggja hana fyrir fulltrúaráðið, annars skal tilnefningin ekki rædd frekar.
Heiðursfélögum og mökum þeirra er ávallt boðið á árshátíð á kostnað RTÍ.

Heiðursfélagi 1 (1979)
Mats Wibe Lund. Fyrir frumkvæði að stofnun Round Table á Íslandi og framúrskarandi störf í þágu hreyfingarinnar.

Heiðursfélagi 2 (1989)
Björn Viggósson. Fyrir frábær störf í þágu hreyfingarinnar.

Heiðursfélagi 3 (1998)
Aðalsteinn Árnason. Fyrir frábær störf í þágu hreyfingarinnar.

Heiðursfélagi 4 (2010)
Eggert Jónasson. Fyrir framúrskarandi störf í þágu hreyfingarinnar.

MERKISATBURÐIR

Til merkisatburða teljast stofnanir aðildarsamtaka og fullgildingar klúbba innan hreyfingarinnar er hafa tengsl við RTÍ.
14. mars 1927 Stofnun Round Table.
08. apríl 1948 Stofnun World Council of Service Clubs, skammstafað WOCO, í Chicaco í Bandaríkjunum.
05. sept. 1970 Stofnun RT-1 Reykjavík og þar með Round Table á Íslandi. Fullgildingarhátíðin fór fram í Reykjavík, að viðstöddum fjölda erlendra gesta.
31. maí 1974 Stofnun RT-2 Reykjavík, á árshátíð RT-1 í Reykjavík, að viðstöddum 36 erlendum gestum.
28. maí 1975 Stofnun RT-3 Reykjavík, á árshátíð RT-1 í Reykjavík. Sama dag var fyrsta landsstjórn RTÍ kosin og tók hún við þeim störfum sem RT-1 hafði haft með höndum.
29. apríl 1978 Stofnun RT-4 Húsavík og RT-5 Akureyri, á árshátíð RTÍ á Húsavík.
10. maí 1980 Stofnun RT-6 Reykjavík, á árshátíð RTÍ í Reykjavík.
16. okt. 1982 Stofnun RT-7 Akureyri, á árshátíð RTÍ á Akureyri.
30. apríl 1983 Stofnun RT-8 Reykjavík, á árshátíð RTÍ í Reykjavík.
30. apríl 1988 Stofnun RT-9 Egilsstaðir, á árshátíð RTÍ á Akureyri. Á sömu árshátíð var stofnaður fyrsti Ladies Circle klúbburinn á Íslandi, LC-1 Akureyri. Stofnendur hans eru eiginkonur félaga í RT-5 Akureyri.
16. sept. 1991 Stofnun Round Table International í Austurríki.
26. apríl 1994 Stofnun RT-10 Keflavík, á árshátíð RTÍ í Reykjavík.
25. apríl 1997 Stofnun RT-11 Vestmannaeyjar, á árshátíð RTÍ í Hveradölum.
3. maí 2003 Stofnun RT-12 Reykjavík og RT-14 Selfoss á árshátið RTÍ á Húsavík.
20. nóv. 2004 Aðalfundur Round Table International haldinn á Íslandi.
29. apríl 2006 Stofnun RT-13 Hafnarfirði á árshátíð RTÍ á Selfossi.
28. apríl 2007 Stofnun RT-16 Fjarðabyggð á árshátíð RTÍ í Hafnarfirði.
2. maí 2009 Stofnun RT-15 Borgarbyggð á árshátíð RTÍ á Egilsstöðum.
2. maí 2009 Stofnun RT-1 Færeyjar á árshátíð RTÍ á Egilsstöðum.

MÓTTAKA GESTA

Landsstjórn skipuleggur móttöku erlendra gesta, sem eru í hennar boði.

ERLENT SAMSTARF
Alþjóðastarf Round Table hreyfingarinnar er tvíþætt. Annars vegar beinist það að samstarfi innan RT-hreyfingarinnar með formlegum tengslum landsstjórna einstakra landa og óformlegum tengslum klúbba og klúbbfélaga og hins vegar með aðild að RTI.

RTI
RTI er skammstöfun fyrir Round Table International. Þessi hreyfing var stofnuð af RT-þjóðum vegna þeirra breytinga sem á nokkrum undangengnum árum höfðu átt sér stað innan WOCO. Þar sem konum var leyfð þátttaka í aðildarfélögum WOCO og aldurstakmörkin færð upp í 45 ár var bein aðild að samtökunum ekki í samræmi við stofnskrá RT.

EMA
Skammstöfunin stendur fyrir European, Mediterranean and American Tablers Meeting og er árlegur aðalfundur deildar RT í Evrópu og Ameríku. Fundurinn er haldinn í júní í endann á RT árinu. Hvert land hefur tvo fulltrúa. Á þessum fundi er valinn EMA forseti og EMA varaforseti.

SAMNÚMERAMÓT (Evrópumót klúbba)
Flestir klúbbar í Evrópu hafa árleg númeramót. Það eru klúbbar með sama númeri í Evrópu, hittast um eina helgi og skemmta sér saman og hafa einn sameiginlegan fund. Klúbbarnir halda þessi mót til skiptis.

MASS-TOUR
Ferðamáti sem skipulagður er af aðildarlöndum innan RTI. Þetta er venjulega hálfsmánaðar til þriggja vikna ferð þar sem ferðast er um land þeirrar þjóðar sem skipuleggur ferðina. Leitast er við að hafa þessar ferðir sem ódýrastar og er því venjulega gist hjá RT-félögum og sjá þeir um að gera ferðina ógleymanlega. Þessar ferðir eru sagðar nokkuð erfiðar sökum mikillar gleði og lítils svefns.

PRE/POST-TOUR
Ferðir sem skipulagðar eru fyrir mót “PRE-TOUR” og eftir mót eða “POST-TOUR” t.d. EMA. Þarna eru heimamenn að gefa kost á kynnum af landi og þjóð í tengslum við fundi og mót. Þessar ferðir eru oft í svipuðum anda og MASS-TOUR, en þó aðeins styttri, oftast ein vika.

NORDIC FUND

Sjóður sem stofnaður var af norrænu þjóðunum til eflingar RT-starfinu, eða annarra verkefna sem áhugi er fyrir hverju sinni. Styrkir eru veittir til einstaklinga sem um þá sækja og skal umsóknum skilað til forseta með upplýsingum til hvers á að nota styrkinn.
Starfsreglur fyrir “Nordic fund” eins og þær voru samþykktar af “Nordic Board Meeting” í Sundsvall, 24. nóvember, 1991:

#1 The Nordic Fund:
The fund was established with the following objects:
(l) to promote and support extensions of the Round Table movement, (ll)to promote and support worthy projects of any kind through which the Nordic countries can care for people in need in other parts of the world.
The Trustees of the Fund shall be the Presidents of the five Nordic Round Table associations. The five Nordic Presidents shall among themselves appoint a Principal Trustee.
Each year at the Nordic Board meeting the Trustees shall appoint an administrator of the Fund for the following financial year. The Administrator shall administrate the Fund in accordance with guidelines given him by the Trustees and he shall only invest the funds of the Fund in recognised financial institutions accepted by the Trustees. The home of the fund shall be with the administrator.

#2 Contributions:
The Fund shall be financed by volontary contributions from the five Nordic countries and from any international associations which wishes to make a contribution. No conditional contributions may be accepted.

#3 Eligibility for Grants from the Fund:
(l) Any Round Table association may apply for a grant at any time.
(ll) Any club or international association associated with Round Table movement may apply for a grant at any time.
The Trustees will meet in connection with Nordic Board meetings to decide on matters pertaining to the Fund. Grants may be decided upon at any time during the year. Any decisions taken under this # must be approved by at least three of the Trusttees.

#4 Capital:
The Capital should at no time be less than 100.000 SEK. No more than 75% of the interest on the capital should be used annually for grants.

#5 Accounting:
The financial year shall be the calendar year. The Administrator shall each year, after the end of the calendar year and before February 1st, send an audited account to the Trustees.

#6 Applications:
Applications may be accepted for any kinds of project in line with the aim of the Fund (see #1 above). Applications must be made in writing, extensively describing the purpose and the cost for which the grant is sought and sent to the Principal Trusttee. The grant is to be used for the described purpose and any change without the approval of the Trusttees will nullify the grant.

#7 Changes of the Statutes:
Amendments and additions to these statutes must be approved by at least four of the Trustees.

MERKI

MERKI RTÍ
Merki RTÍ er hringlaga skjöldur að þvermáli 1000. Merkið er í tveimur litum, aðallit og grunnlit. Yst er hringur að breidd 12, en innst er hringlaga skífa að þvermáli 420 með mynd af gjósandi eldfjalli. Svæðinu þar í milli, með ytra þvermál 956 og innra þvermál 440, er skipt upp í 24 geira og er annar hver geiri í lit. Svæðið er hreinskorið með tveimur hringjum, ytri hringur að breidd 8 og innri að breidd 10. Geirar í höfuðáttir eru í grunnlitum og koma fjórar gáraðar línur, er tákna öldur, í norður.
Litir í merki RTÍ eru svartur sem aðallitur og silfur sem grunnlitur.
Notkun merkis RTÍ er óheimil nema með leyfi landsstjórnar og skal þá notast óbreytt.

MERKI KLÚBBA
Í merki klúbba skal form merkis RTÍ koma fram og stærð þess skal ekki vera minna en fjórðungur stærsta þvermáls klúbbmerkis. Ný merki klúbba sendist landsstjórn til samþykktar.
Notkun klúbbmerkis er í höndum stjórnar klúbbs.

FÁNAR

LANDSSTJÓRNARFÁNAR
Útlit og gerð landsstjórnarfána skal vera samkv. lögum RTÍ. Framleiðsla og afhending allra fána landsstjórnar, skal eingöngu vera í höndum landsstjórnar.
Borðfáni landsstjórnar skal vera í eigu hvers klúbbs innan RTÍ. Landsstjórn er heimilt að afhenda fánann forsetum aðildarfélaga innan RTI og í sérstökum tilfellum almennum klúbbfélögum.
Starfandi aðilum innan landsstjórnar er heimilt að nota borðfána landsstjórnar með áletrun til eigin nota, beri hann ekki íslenska þjóðfánann á bakhlið. Áletrunin skal vera staðsett nokkru neðan merkis og skal einungis innihalda nafn og stöðu viðkomandi aðila innan landsstjórnarinnar og ártöl starfsára. Gæta skal þess að áletrunin rýri ekki útlit og gildi fánans.
Veggfána landsstjórnar skal nota á fundum hennar og fulltrúaráðs. Frekari notkun hans er í höndum landsstjórnar hverju sinni.
Útifána landsstjórnar er heimilt að nota þar sem RT-félagar koma saman.
Varðandi meðferð og notkun vísast til almennra reglna um notkun slíkra fána.

KLÚBBFÁNAR
Útlit og gerð klúbbfána skal vera samkvæmt lögum RTÍ. Hver klúbbur skal láta útbúa borðfána. Heimilt er að afhenda klúbbfána félögum sem hafa aðild að RTI og skyldra félagasamtaka. Umráð og afhending klúbbfána er að öðru leyti í höndum hvers klúbbs fyrir sig.

KEÐJUR

Embættistákn innan Round Table Íslands eru tvenns konar, keðjur klúbbformanna og tákn landsstjórnarmanna:

Keðja Forseta RTÍ:
Men keðjunnar er miðja merkis RTÍ útfærð í silfur og svart. Keðjan er gerð úr silfurplötum og á hlekki hennar eru grafin nöfn forseta (landsformanna) og starfsár. Milli fyrsta og annars hlekks eru svartir steinar í silfurumgjörð, sitthvoru megin mens.

Keðjur klúbbformanna:
Keðjum klúbbformanna svipar til keðju forseta en einfaldari að gerð. Men keðjunnar er svartur steinn í silfurumgjörð. Í hlekki keðju eru grafin nöfn klúbbformanna og starfsár, eitt nafn á hvern hlekk.

Embættistákn landsstjórnarmanna:
Men embættistákna landsstjórnarmanna annarra en forseta er merki RTÍ útfært í silfri.
Í stað keðju er:
Hvítur borði fyrir varaforseta. Blár borði fyrir gjaldkera landsstjórnar. Borði í íslensku fánalitunum fyrir IRO-fulltrúa.

Útvegun embættistákna:
Landsstjórn sér um að útvega öll embættistákn og ber allan kostnað af útvegun þeirra. Hún skal sjá um að hver nýr klúbbur fái formannskeðju við fullgildingu klúbbs, honum að kostnaðarlausu.

Notkun keðja og embættistákna:
Allir formenn innan RTÍ skulu bera formannskeðju á opinberum fundum þ.e. á aðal-, fulltrúaráðs-, og klúbbfundum. Einnig skulu þeir bera keðjuna þar sem þeir koma fram sem fulltrúar RTÍ eða klúbbs síns gagnvart RT félögum frá öðrum klúbbum eða löndum. Sama gildir um tákn embættismanna.
Formanni eða embættismanni ber að gæta keðju og tákna sinna á þann hátt að hvorki útliti þeirra eða ástandi verði spillt.
Afhending embættistákna fer fram við stjórnarskipti á aðalfundi fulltrúaráðs.

ORÐUR

Orður eru viðurkenningar til handa þeim sem hafa haft embætti innan hreyfingarinnar. Þær eru:
Heiðurspeningur: Peningurinn er gulllitað merki RTÍ og borði í fánalitum með gylltum festiplötum, á efri plötu er grafið „HONORARY MEMBER“. Heiðursfélögum RTÍ er einum leyfilegt að bera þessa orðu.
Framúrskarandi félagi: Peningurinn er gulllitað merki RTÍ með borða í gulum lit og festiplötur til beggja enda gylltar og á efri plötu er grafið „GOLD MEMBER“. Þessi orða er veitt fyrir framúrskarandi starf innan klúbbs til margra ára. Formaður klúbbs afhendir orðuna við tækifæri sem klúbbfélögum finnst við hæfi.
Við úthlutun á orðunni ber að hafa í huga að þetta er orða sem veitt er fyrir sérstaklega vel unnin störf í þágu klúbbs til margra ára og það þarf að vera full samstaða innan klúbbs um veitingu hennar.
Fyrrverandi IRO: Peningurinn er gulllitað merki RTÍ og borði í rauðum lit og festiplötur til beggja enda gylltar og á efri plötu er grafið „PAST NAT. IRO“.
Fyrrverandi forseti: Peningurinn er gulllitað merki RTÍ og borði í fánalitum og festiplötur til beggja enda gylltar og á efri plötu er grafið „PAST NAT. PRESIDENT“.
Fyrrverandi gjaldkeri landsstjórnar: Peningurinn er gulllitað merki, borði er blár að lit og festiplötur til beggja enda og á efri plötu er grafið „PAST NAT.TREASURER“.
Fyrrverandi klúbbformaður: Peningurinn er silfurlitaður og svartur, borði er dökkrauður og silfraðar festiplötur til beggja enda og á efri plötu er grafið „PAST CHAIRMAN“.
Fyrrverandi embættismenn landsstjórnar: Peningurinn er gulllitað merki, borði er hvítur að lit og festiplötur til beggja enda og á efri plötu er grafið:
PAST NAT. MASTER OF SEREMONY (siðameistari)
PAST NAT. WEB-MASTER (vefstjóri)
PAST NAT. EDITOR (ritstjóri)
PAST NAT. SHOP KEEPER (verslunarstjóri).
Orðuveiting landsstjórnar fer fram á árshátíð RTÍ, undir stjórn fráfarandi Siðameistara RTÍ.
Orðuveiting klúbbformanna fer fram á aðalfundi B, undir stjórn fráfarandi siðameistara klúbbs eða nýkjörins formanns.

BARMMERKI

Allir félagar skulu eiga barmmerki RTÍ og bera það þar sem þeir koma fram sem félagar í Round Table. Landsstjórn skal sjá um framleiðslu og dreifingu merkja til einstakra klúbba.

UPPLÝSINGAEFNI FYRIR STJÓRNIR KLÚBBA
Landsstjórn sér um að útbúa upplýsingaefni fyrir stjórnir klúbba. Þar í skulu vera hagnýtar upplýsingar um fundarsköp, lög RTÍ og siðareglur, allar þær upplýsingar um RTI og EMA sem að haldi geta komið til að fræða félaga um þennan vettvang starfsins. Efni þetta skal vistað á heimasíðu RTÍ með þeim hætti að félagar geti nálgast það auðveldlega.

AFHENDING OG UMGENGNI BIKARA

FJÖLGUNARBIKAR
Starfsreglur um bikarinn Nýr félagi:
1. Bikarinn er verðlaunagripur gefinn til eflingar Round Table starfi á Íslandi. Fyrst gefinn af Júlíusi Sigurðssyni, landsformanni 1980-1981, öðru sinni af Aðalsteini Árnasyni, landsformanni 1990-1991.
2. Bikarinn heitir “Nýr félagi”.
3. Bikarinn er farandgripur og skal afhentur á fánaskiptafundi Round Table ár hvert.
4. Bikarinn er veittur þeim klúbbi, sem sýnir mesta fjölgun félaga milli ára samkvæmt félagatali að frádregnum félögum sem hætta á starfsárinu.
5. Ef tveir klúbbar eða fleiri hafa jafna félagafjölgun skal hlutkesti gilda.
6. Stofnun nýs klúbbs telst vera fjölgun félaga.
7. Bikarinn skal varðveittur af formanni þess klúbbs sem hlýtur hann hverju sinni.
8. Klúbbur sá er hlýtur bikarinn skal skila honum með ágröfnu nafni sínu og ártali, til siðameistara, fyrir fánaskiptafund.
9. Bikarinn verði veittur sem farandgripur í 10 ár. Að þeim tíma loknum afhendist hann landsstjórn Round Table Íslands til varðveislu.

MÆTINGABIKAR
Starfsreglur um mætingabikarinn:
1. Bikarinn er farandgripur og skal afhentur á fánaskiptafundi Round Table ár hvert.
2. Bikarinn er veittur þeim félaga, sem hefur 100% mætingu á því starfsári sem var að líða og miðast við tölu funda samkvæmt dagskrá klúbbs hans.
3. Þeir einir geta keppt um bikarinn er staddir eru á fánaskiptafundinum.
4. Draga skal á milli félaga.
5. Bikarinn skal afhentur fullur af öli eða öðrum þeim vökva er við á hverju sinni og skal teigað úr honum á staðnum á sem skemmstum tíma.
6. Bikarinn skal varðveittur af þeim er hlýtur hann og skal hann skila honum aftur með ágröfnu nafni sínu og ártali.

FERÐAGARPUR
Starfsreglur um Ferðagarpinn:
1. Skjöldurinn er verðlaunaskjöldur gefinn af Ágústi H. Rúnarssyni landsformanni RTÍ 1988-1989, til eflingar alþjóðlegu samstarfi RT-félaga.
2. Skjöldurinn heitir “Ferðagarpurinn”.
3. Skjöldurinn er farandgripur og skal hann afhentur á fánaskiptafundi RTÍ ár hvert.
4. Skjöldurinn skal afhentur þeim RT-félaga sem sótt hefur flesta fundi, mót, ferðir eða dvalist hjá erlendum félögum og með starfi sínu eflt erlend samskipti.
5. Hafi enginn félagi farið erlendis eða verði tveir eða fleiri jafnir, skal þátttaka í innlendum samskiptum ráða úrslitum.
6. Skjöldurinn skal veittur sem farandgripur í ellefu ár. Að þeim tíma liðnum afhendist hann landsstjórn RTÍ til varðveislu.

FERÐASJÓÐUR ROUND TABLE ÍSLAND

Sjóðurinn var upphaflega stofnaður þann 28.4.1990 í tilefni af 20 ára afmæli RT-1 Reykjavík, fyrsta Round Table klúbbs á Íslandi. Stofnandi var Mats Wibe Lund sem var hvatamaður að stofnun Round Table á Íslandi ásamt RT-35 Osló, Noregi. Sjóðurinn bar nafnið Styrktarsjóður Mats fyrstu 20 árin en með breytingum á honum á 40 afmæli hreyfingarinnar var höfuðstóli sjóðsins skipt upp í ferðasjóð og skógræktarsjóð.

1. grein
Sjóðurinn heitir „Ferðasjóður Round Table Ísland“. Heimili hans og varnarþing er hið sama og Round Table Ísland, kt. 670789-2419.

2. grein
Stofnfé sjóðsins er framlag úr styrktarsjóði Mats Wibe Lund, framlag Björns Viggóssonar heiðursfélaga Round Table á Íslandi og framlag Round Table Ísland. Aðrar tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur og gjafir er honum kunnu að berast.

3. grein
Tilgangur sjóðsins er að veita Round Table félögum ferðastyrki, svo að þeir geti tekið þátt í erlendu starfi Round Table og eflt þannig vináttu og alþjóðatengsl í anda einkunnarorðanna „Tileinka - Aðlaga - Bæta“.
A) Áhersla er á ferðalög nýliða í hreyfingunni og miðað við að þeir sem starfað hafa í hreyfingunni í 3 ár eða skemur njóti forgangs þegar að styrkjaúthlutun kemur.
B) Við úthlutun úr sjóðnum er horft til eflingar tengsla við norræna Round Table klúbba og njóta þeir forgangs sem hyggja á þátttöku í mótum og fundum á starfssvæði NTM.

4. grein
Sækja skal um styrk úr sjóðnum og skal umsókn send til landsstjórnar RTÍ fyrir 1. mars, ár hvert. Útilokaðir frá styrkveitingu eru formenn klúbba og stjórnarmenn landsstjórnar það ár sem þeir eru í embætti. Umsóknir frá þeim sem hafa gengt þessum embættum skulu víkja fyrir öðrum umsóknum næstu tvö ár eftir að embættissetu lýkur.

5. grein
Úthlutun úr sjóðnum annast sjóðsstjórn. Í henni sitja: Forseti RTÍ, varaforseti RTÍ og IRO RTÍ. Stjórn sjóðsins velur sér formann.

6. grein
Úthluta skal úr sjóðnum árlega, þó með fyrirvara um stærð sjóðs m.t.t. 3. málsgr. 7. gr. Miðað er við að allt að þrír styrkir verði veittir ár hvert. Upphæð hvers styrks skal vera nægileg til að greiða fyrir þátttökugjöld og jafnvel hluta annars kostnaðar. Miðað er við að styrkupphæð liggi fyrir eigi síðar en á öðrum fulltrúaráðsfundi hvers starfsárs. Afhending ávísunar á styrk skal fara fram á Fánaskiptafundi Round Table Íslands eða árshátíð og annast formaður sjóðsstjórnar veitinguna.

7. grein
Fjármunir sjóðsins skulu varðveittir og ávaxtaðir í nafni Round Table Ísland, kt. 670789-2419. Fjármunum sjóðsins skal haldið tryggilega aðskildum frá öðrum sjóðum hreyfingarinnar. Höfuðstóllinn skal jafnan vera ávaxtaður með öruggum hætti á innlánsreikningum, ríkistryggðum skuldabréfum og/eða sjóðum sem fjárfesta í ríkistryggðum skuldabréfum. Höfuðstóll sjóðsins skal aldrei fara niður fyrir 500 þúsund krónur miðað við neysluverðsvísitölu 360 stig.

8. grein
Ávallt skal þess getið í ársskýrslu landsstjórnar RT hverjir hafa hlotið úthlutun úr sjóðnum og hversu mikið. Ennfremur skal styrkþegi semja skýrslu um ferðina í þeim tilgangi m.a. að hvetja sem flesta félaga til alþjóðlegra kynna af RT starfi. Skýrsluna skal senda til ritstjóra roundtable.is eigi síðar en mánuði eftir að ferð lýkur og fæst þá styrkurinn greiddur.

9. grein
Sjóðsstjórnin er ábyrg fyrir ávöxtun sjóðsins innan þeirra marka sem lög heimila hverju sinni. Varðveisla sjóðsins skal vera hjá viðurkenndum viðskiptabanka eða rekstrarfélagi hans. Sjóðurinn skal einungis varðveittur í einni fjármálastofnun á hverjum tíma. Umsjón með sjóðnum hefur gjaldkeri landsstjórnar Round Table Ísland. Lánveiting úr sjóðnum er með öllu óheimil. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir árlega af endurskoðendum landsstjórnar Round Table Íslands og lagðir fram með ársreikningum landsstjórnar RTÍ.

10. grein
Sjóðstjórnin skal kynna sjóðinn og þá styrki sem úr honum eru veittir á fundum með íslenskum Round Table félögum. Einnig skal stjórnin leita eftir stuðningi við sjóðinn hjá eldri félögum sem með framlögum geta stutt hann og byggt upp til framtíðar.

11. grein
Verði Round Table Ísland lagt niður skal sjóðstjórnin verja höfuðstólnum til góðgerðarmála tengt nafni Mats Wibe Lund og Round Table Ísland.

FERÐAHAPPDRÆTTI RTÍ

1. Tilgangur ferðahappdrættisins er að efla alþjóðleg kynni með því að stuðla að ókeypis ferð eins RT félaga á erlent mót RT félaga.
2. Ferðin verður að vera farin sumar eða haust þess árs sem efnt er til happdrættisins.
3. Allir klúbbar í RTÍ hafa rétt til þátttöku.
4. Allir félagar í RTÍ greiða gjald til ferðahappdrættisins og myndar það upphæðina sem er í boði ár hvert.
5. Landsstjórn annast drátt og skal hann fara fram 3. fundi fulltrúaráðs. Eingöngu þeir klúbbar sem hafa greitt gjöld sín til landsstjórnar koma til greina í útdrættinum.
6. Draga skal 3 númer. Ef sá klúbbur sem dreginn er fyrstur getur ekki nýtt sér vinninginn gengur hann til næsta klúbbs.
7. Tilkynna skal landsstjórn innan 4. vikna hver fer í ferðina.
8. Vinningshafa er óheimilt að afhenda vinninginn öðrum aðila.
9. Greiðsla vinningsupphæðarinnar fer fram að ferð lokinni, þegar vinningshafi hefur skilað skriflegri skýrslu til landsstjórnar eða ferðasögu til ritstjóra RTÍ.
10. Öllum ágreiningi skal vísað til landsstjórnar.

STARFSREGLUR FYRIR RITSTJÓRA RTÍ

1. Ritstjóri yfirfer allt efni sem birtist á vefsvæði RTÍ, bæði m.t.t. efnistaka og málfars.
2. Ritstjóri hefur heimild til þess að fjarlægja efni af vefsvæði RTÍ sem ætla má að sé ærumeiðandi eða þess eðlis að samræmast ekki tilgangi vefsins. Nýti hann heimildina skal hann tilkynna forseta hreyfingarinnar það. Forseti getur hnekkt ákvörðun ritstjóra.
3. Ritstjóri hefur eftirlit með að allt efni sem birtist á síðum vefsins sé rétt og að helstu þættir birtist reglulega. Þessir þættir eru:
a. Ávarp forseta í upphafi starfsárs.
b. Skýrsla forseta fyrir 4. fulltrúaráðsfund.
c. IRO síðan.
d. Kynning á nýkjörnum varaforseta.
e. Kynning á fulltrúaráði.
f. Fréttapunktar frá landsstjórn og klúbbum.
g. Upplýsingar um komandi aðalfund og árshátíð.
h. Fundargerðir fulltúaráðsfunda.

MINNINGARSJÓÐUR TÓMASAR SIGURÐSSONAR

Minningarsjóður Tómasar Sigurðssonar er stofnaður til minningar um Tómas Sigurðsson, verkfræðing. Tómas var félagi í RT-1, en fórst í þyrluslysi 17. jan. 1975. Tómas var deildarverkfræðingur hjá Rafmagnsveitum ríkisins.
Tildrög sjóðsins voru, að foreldrar Tómasar frú Maggy og Sigurður Tómasson, vildu minnast sonar síns með gjöf til Round Table hreyfingarinnar. Niðurstaða umræðna milli félaga í RT-1 og foreldra Tómasar var, að stofnaður yrði umræddur minningarsjóður.

SKIPULAGSSKRÁ:
1. grein

Sjóðurinn er stofnaður, með dánargjöf, af foreldrum Tómasar heitins, frú Maggy og Sigurði Tómassyni, ásamt RT1 Reykjavík.

2. grein
Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Tómasar Sigurðssonar, verkfræðings.

3. grein
Sjóðurinn er eign félagsskaparins Round Table Ísland. Eftirtaldir þrír menn skulu skipa stjórn sjóðsins: Forseti RTÍ, gjaldkeri landsstjórnar RTÍ og kjörinn fulltrúi RT-1 Reykjavík. Stjórn sjóðsins skal sjá um að eignir hans séu jafnan varðveittar tryggilega og ávaxtaðar með sem hagkvæmustum hætti.
Stjórn sjóðsins skal halda gerðabók fyrir sjóðinn. Reikningar sjóðsins skulu birtir árlega á aðalfundi fulltrúaráðs, yfirfarnir af skoðunarmanni reikninga landsstjórnar.

4. grein
Höfuðstól sjóðsins skal ekki skerða og skal auka hann um 20% af árlegum tekjum sjóðsins, ef ekki kemur til úthlutunar á reikningsárinu.

5. grein
Til eflingar sjóðnum er tekið á móti áheitum, minningargjöfum, frjálsum samskotum og öðrum gjöfum sem sjóðnum kann að áskotnast.

6. grein
Tilgangur sjóðsins er að styrkja þá félaga Round Table á Íslandi sem vegna veikinda eða slysa hafa að mati sjóðsstjórnarinnar þörf fyrir fjárhagslegan stuðning tímabundið. Gildir þetta einnig um þá félaga sem hætt hafa í RTÍ af aldurssökum. Í sambandi við dauðsfall fyrrverandi aðila má sjóðsstjórn veita nánasta venslamanni styrk úr sjóðnum. Einnig er stjórn sjóðsins heimilt að veita tekjuafgangi sjóðsins til annarra verkefna í þágu RT-félaga á Íslandi.

7. grein
Hætti félagsskapurinn Round Table Ísland eða leggist niður, þá yfirfærist sjóður þessi til Verkfræðingafélags Íslands sem Minningarsjóður Tómasar Sigurðssonar, verkfræðings. Skal þá starfsemi sjóðsins aftur ákveðin af hinum nýju umsjónarmönnum. Ofangreind skipulagsskrá, sem er í tvíriti, var samþykkt í Reykjavík, 17. janúar 1976.

FRÁFALL FÉLAGA EÐA MAKA

Skipulag
1. Við andlát félaga eða maka hans getur viðkomandi klúbbur óskað eftir því við landsstjórn að sett verði af stað söfnun til handa nánustu aðstandendum hins látna. Landsstjórn skal meta þörfina á slíkri söfnun hverju sinni.
2. Þriggja manna stjórn söfnunarinnar skal skipuð eftirfarandi aðilum: forseta RTÍ, gjaldkera RTÍ og formanni viðkomandi klúbbs. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
3. Stofnaður skal sérstakur reikningur hverju sinni þar sem framlög skulu lögð inn.
4. Söfnunarupphæð skal miðast við helming af árgjaldi hvers klúbbs til landsstjórnar.
5. Söfnuninni skal lokið innan 6 mánaða frá andláti félaga og skal þá afhenda söfnunarfé til nánustu aðstandenda.
6. Öllum ágreiningsmálum varðandi söfnunina skal vísað til afgreiðslu fulltrúaráðsfundar RTÍ.
Markmið
Markmið söfnunarinnar er að sýna samhug í verki hjá RT félögum á öllu landinu þegar félagi eða maki hans fellur frá.
Skilgreiningar
- Maki félaga telst vera sambúandi eða giftur maki.
- Nánustu aðstandendur eru aðeins maki og börn hins látna.

REGLUR UM STULD

1. Markmið
1.1. Markmið reglnanna er að koma ramma utan um þessa góðu hefð innan Round Table Íslands. Markmið með stuldi er að efla heimsóknir klúbba innan Round Table Íslands og eins í erlendu samstarfi.

2. Stuldur
2.1. Félögum er heimilt að „stela“ munum annarra klúbba með það að markmiði að fá fulltrúa til að sækja hinn týnda mun áður en næsti fulltrúaráðsfundur fer fram eða skv. samkomulagi milli varðveislu hafa og eiganda.
2.2. Með stuld er átt við að taka muni ófrjálsri hendi, finna, varðveita, passa, geyma um stundarsakir/tímabundið eða hvers lags orðalag sem á yfir að fjarlægja mun annars klúbbs á opinberri samkomu sem haldin er á vegum RTÍ.
2.3. Steli félagi hlut skal hann gæta þess að láta hlutaðeigandi aðila vita að hann hafi í sinni varðveislu mun eða muni, sjá 2.4.1 til 2.4.3. Hann eða viðkomandi klúbbur skal sjá til þess að munurinn komist í réttar hendur.
2.4. Hverja skal láta vita hafi maður stolið mun:
2.4.1. Á fulltrúaráðsfundum skal láta siðameistara RTÍ og/eða varaforseta RTÍ vita.
2.4.2. Á almennri uppákomu innan Round Table Íslands skal láta siðameistara RTÍ, siðameistara þess klúbbs sem heldur fundinn og/eða varaformann klúbbs eða landsstjórnar.
2.4.3. Nauðsynlegt er að láta vita af stuldi ekki seinna en sjö dögum frá viðburðinum og skal það gert skriflega, t.d. með tölvupósti, opinberlega með myndbirtingu á heimasíðunni www.roundtable.is eða „fésbókinni“ eða með sambærilegum hætti.

3. Það sem ekki má
3.1. Landstjórnarfáni (vegg- og útifánar), borðfáni og fundahamar RTÍ skulu vera friðhelgir á öllum fundum og samkomum innan RTÍ. Einnig ber öllum meðlimum RTÍ að gæta áður upptalinna muna RTÍ í sameiningu þegar erlendir gestir eru á uppákomum.
3.2. Orðum má ekki undir neinum kringumstæðum stela.
3.3. Óheimilt er að stela söluvarningi sem félagar í RT eiga hvort sem það er landstjórnar „sjoppan“ eða söluvarningur klúbbs, enda ætlað til fjáröflunar.
3.4. Persónulegar eigur félaga, s.s. pinnar, vesti, peysur, húfur og þess háttar má ekki stela, enda oft á tíðum hafa þær mikið persónulegt gildi fyrir eigandann, á tíðum óbætanlegt ef munur skemmist eða týnist.
3.5. Óheimilt er að beita líkamsmeiðingum, frelsissviptingu eða nokkrum öðrum þvingunum þegar munum er stolið.

4. Það sem má
4.1. Félögum er heimilt að stela öllum eigum klúbbs, s.s. formannstösku, formannskeðju, ræðupúlti, bikurum, verðlaunum, tímamælum, flíkum, myndum og öllu því sem eru eigur klúbbs og ekki er getið í 3. gr.
4.2. Erlendis er félögum heimilt að stela öllum RT-munum nema persónulegum munum erlendra félaga.
Endurútgefnar með breytingum í október 2008.
Endurútgefnar með breytingum í október 2010.
Endurútgefnar með breytingum í október 2011.
Endurútgefnar með breytingum í október 2012.
Endurútgefnar með breytingum í október 2013.
Endurútgefnar með breytingum í október 2014.
Endurútgefnar með breytingum í október 2016.

Support