Lög RTÍ

1. ALMENNT

1.1 HEITI

Heiti félagsskaparins er Round Table Ísland, skammstafað „RTÍ”.

1.2 MARKMIÐ

1.2.1. Að kynna og sameina unga menn úr mismunandi starfsgreinum.

1.2.2. Að leggja áherslu á að sameinaðir höfum við tök á að öðlast betri skilning á þjóðfélaginu, stöðu einstaklingsins innan þess, og okkar möguleikum á að bæta þar úr með góðum gjörðum.

1.2.3. Að leggja rækt við ráðvendni í viðskiptum, starfi og stjórnsýslu.

1.2.4. Að stuðla að vináttu, samvinnu og skilnings á milli manna úr öllum

starfsgreinum.

1.2.3. Að auka alþjóðatengsl og vináttu með aðild að RTI.

1.3 EINKUNNARORÐ

Einkunnarorðin eru alþjóðleg „Adopt - Adapt - Improve“, sem eru á íslensku „TILEINKA - AÐLAGA - BÆTA“.

1.4 STAÐA RTÍ

1.4.1 RTÍ er landssamband Round Table klúbba á Íslandi. Hver einstakur

félagi tengist RTÍ með klúbbi sínum. RTÍ er aðili að Round Table International (RTI), með „Full Member“ stöðu.

1.4.2 „Full Members“ eða fullgildir aðilar að RTI eru þau aðildarlönd sem viðhalda fullgildri aðild að RTI, og heita því að halda réttindum og skyldum samkvæmt sínum lögum í fullu samræmi við lög allra hinna fullgildu aðildarþjóðanna.

1.4.3 Breytingar á greinum 1.1, 1.2, 1.4, 2.1, 2.6, 3.12, og 3.13, og 6.1 í lögum RTÍ, sem brjóta kunna í bága við greinar 5.3.1 - 5.3.1.8 í lögum RTI, verður að samþykkja á aðalfundi RTI áður en leggja má þær til atkvæða á aðalfundi RTÍ.

Breytingartillögur af þessu tagi ber að senda til fullgildu aðildarþjóðanna, forseta RTI, og svæðisformanns EMA, að minnsta kosti þremur mánuðum fyrir þann aðalfund RTI sem næstur er þeim aðalfundi RTÍ þar sem leggja á breytingarnar til atkvæða. Þessar tilkynningar skulu innihalda tillögurnar á móðurmálinu, ásamt nákvæmri þýðingu þeirra yfir á ensku.

Fullgildu aðildarþjóðirnar skulu greiða atkvæði um téðar breytingar, eftir þeim reglum sem gilda um lagabreytingar RTI. RTÍ hefur atkvæðisrétt í þessum

tilvikum sem öðrum. Sömu afgreiðslu skal beitt til að ákvarða hvort núgildandi lög RTÍ fullnægja aðild að RTI sem fullgild aðildarþjóð.

Breytingartillögur sem tekin hefur verið afstaða til á aðalfundi RTI má ekki bera aftur fram fyrr en á öðrum aðalfundi þaðan í frá. Tillögur sem hefur verið hafnað má ekki leggja til atkvæða á aðalfundi RTÍ.

Kjósi RTÍ að virða að vettugi ákvæði þessarar greinar verður RTÍ sjálfkrafa að aukaaðildarþjóð að RTI.

1.5 RÁÐ OG STJÓRNIR RTÍ

RTÍ hefur eftirfarandi ráð og stjórn:

1.5.1. Fulltrúaráð, sem fer með æðsta vald.

1.5.2. Landsstjórn, sem fer með framkvæmdavald.

1.6 STARFSÁR RTÍ

Starfsárið hefst og því lýkur með aðalfundi fulltrúaráðs.

Reikningsárið hefst 1. apríl og lýkur 31.mars.

Starfsár nefnda og ráða fylgir starfsári.

1.7 LAGABREYTINGAR

Tillögur um lagabreytingar skal senda landsstjórn fyrir síðasta almennan fulltrúaráðsfund þar sem þær eru kynntar. Landsstjórn skal senda framkomnar tillögur með fundarboði á aðalfund fulltrúaráðs. Afgreiðsla tillagnanna fer fram á aðalfundi fulltrúaráðs og þarf 2/3 hluta atkvæða til samþykktar.

2. FÉLAGAR

2.1 FÉLAGAR

Í félagsskapnum geta orðið félagar karlmenn á aldrinum 20-45 ára. Félagar mynda sjálfstæða klúbba sem tengjast saman í RTÍ. Stefnt skal að því að klúbbarnir séu skipaðir fulltrúum mismunandi starfsgreina.

2.2 INNTAKA NÝRRA FÉLAGA

Tillögur um nýjan félaga skal senda útbreiðslunefnd klúbbsins með sem flestum upplýsingum um hann. Stjórn klúbbs skal senda landsstjórn tilkynningu um inntöku nýrra félaga minnst viku fyrir inntöku.

2.3 FLUTNINGUR FÉLAGA MILLI KLÚBBA

Félagi sem flytur frá einum landshluta eða landi til annars, þar sem starfandi er klúbbur sem er aðili að RTÍ, getur orðið félagi í nýja klúbbnum á nýja svæðinu, ef gamli klúbburinn hans mælir með honum. Nýja klúbbnum er skylt að veita honum inngöngu jafnvel þótt fullsetinn sé.

2.4 FÉLAGI HÆTTIR

Félagi hættir í lok þess starfsárs klúbbsins, þegar hann hefur náð 45 ára aldri.

Formönnum er þó skylt að ljúka trúnaðarstörfum.

2.5 BROTTVÍSUN FÉLAGA

Stjórn klúbbs getur vísað félaga brott.

 1. Ef fjarvera er meiri en 50% af fundum ársins án þess að gefnar séu gildar ástæður.
 2. Ef hann hefur ekki greitt árgjaldið 3 mánuðum eftir að það er fallið í gjalddaga.
 3. Af öðrum orsökum sem hún metur nægar hverju sinni og þarf þá samþykki klúbbsins á félagsfundi.

2.6 EMBÆTTISTAKA FÉLAGA

Félagi skal vera virkur félagi í RTÍ þegar hann tekur við embætti, hvort heldur sem er fyrir klúbb eða landsstjórn.

3. KLÚBBAR

3.1 KLÚBBAR

Klúbbar eru tölusettir og nefnast RT ásamt tölu sinni og staðarnafni. Fjöldi félaga í hverjum klúbbi skal vera að hámarki 30.

3.2 STARFSÁR KLÚBBSINS

Starfsár hefst og lýkur með aðalfundi B. Reikningsárið er það sama og hjá landsstjórn, 1. apríl til 31. mars. Starfsár nefnda og ráða fylgir starfsári.

3.3 AÐALFUNDIR KLÚBBS

Aðalfundur er æðsta ráð klúbbsins. Fundinum stjórnar fundarstjóri sem er kosinn af aðalfundi. Í öllum atkvæðagreiðslum ræður einfaldur meirihluti. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns. Aðalfundur er í tveimur hlutum, A og B.

Hluti A er kjörfundur og skal haldinn í mars og skal þar kjósa fyrir næsta ár:

 1. Formann
 2. Varaformann
 3. Gjaldkera
 4. Ritara
 5. Þrjá menn í útbreiðslunefnd
 6. Þrjá menn í uppstillingarnefnd
 7. Skoðunarmann reikninga
 8. Kosning annarra embættismanna

Uppástunga uppstillingarnefndar verður að koma fram og sendast félögum minnst 1 viku fyrir fund, ásamt fundarboði og dagskrá. Kjörfundur getur tekið önnur mál fyrir, ef stjórnin æskir þess, og skulu þau þá sett á dagskrá.

Hluti B skal haldinn í apríl fyrir aðalfund fulltrúaráðs. Fundarboð og fullgerð dagskrá sendist félögum minnst 1 viku fyrir fund. Fundurinn skal taka fyrir:

 1. Ársskýrslu formanns
 2. Reikninga
 3. Önnur mál

Aukaaðalfund skal halda þegar stjórn eða minnst 1/4 félaga krefst þess. Um hann gilda sömu reglur og um aðalfund A og B.

Ársskýrsla klúbbsins sendist til landsstjórnar í síðasta lagi á aðalfund RTÍ og skal einnig gerð aðgengileg á vefsvæði klúbbsins fyrir aðalfundinn.

3.4 STJÓRN KLÚBBS

Í stjórn klúbbs eru:

 1. Formaður.
 2. Varaformaður.
 3. Ritari, sem gegnir ennfremur störfum stallara.
 4. Gjaldkeri.

Starfstími er 1 starfsár og hefst á aðalfundi B. Þrjá stjórnarmenn má endurkjósa og minnst einn skal endurkjósa. Kjörgengir eru þeir sem hafa verið félagar í 1 ár. Formaður er ekki kjörgengur í 3 ár sem formaður eftir starfstímabil.

3.5 STARF STJÓRNAR

Til funda er boðað af formanni og stjórnast þeir af honum eða varaformanni. Stjórnin er starfhæf, ef þrír stjórnarmenn eru mættir. Í öllum atkvæðagreiðslum stjórnarinnar ræður einfaldur meirihluti. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Fundargerð skal rituð í fundagerðarbók. Skýrsla stjórnar ásamt reikningum skal vera aðgengileg fyrir félaga. Fráfarandi formaður getur mætt á stjórnarfundi, en þá án atkvæðisréttar.

3.6 KLÚBBFUNDIR

Fundi skal halda að jafnaði tvisvar í mánuði eftir dagskrá komandi starfsárs sem stjórn ákveður. Stjórnin skal leggja fram dagskrá á fyrsta fundi nýs starfsárs. Félagar eru fundaskyldir og skal halda mætingaskrá. Mæting á fund hjá öðrum klúbbi telst fullgild mæting. Forföll skal tilkynna til fundarstjóra fundarins eða stjórnar. Fyrsta fund á hausti skal halda eigi síðar en í september.

Í atkvæðagreiðslum, þar sem atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns.

3.7 ÁRGJALD KLÚBBA

Rekstraráætlun klúbbs ásamt tillögu að árgjöldum, skal senda félögum eigi síðar en 7 dögum fyrir fyrsta almenna fund haustsins. Á þeim fundi skal í síðasta lagi taka rekstraráætlunina og tillögu um árgjöld til umræðu og ákvörðunar. Klúbbarnir greiða árgjöld til RTÍ miðað við félagafjölda hverju sinni. Nýir félagar sem byrja á haustönn greiði 1/2 gjald til RTÍ og þeir félagar sem byrja á vorönn, greiði ekkert gjald.

3.8 STOFNUN NÝS KLÚBBS

Ef klúbbur vill standa fyrir stofnun nýs klúbbs skal hann sækja um leyfi til landsstjórnar þar sem jafnframt komi fram hvernig að stofnun skuli staðið.

3.9 FÉLAGASKRÁ KLÚBBS

Stjórn klúbbs skal halda félagaskrá. Nýja félagaskrá skal senda landsstjórn í ársskýrslu eigi síðar en á aðalfund fulltrúaráðs. Mætingaskrá líðandi starfsárs skal liggja fyrir á aðalfundi fulltrúaráðs.

3.10 STARFSREGLUR KLÚBBS

Klúbbur getur sett nánari starfsreglur og skulu þær vera innan ramma laganna.

3.11 SLIT KLÚBBS

Tillaga um slit klúbbs skal rædd á almennum fundi eða aukafundi sem löglega er boðað til, enda sé þess máls getið í fundarboði. Til samþykkis þarf 3/4 hluta atkvæða. Atkvæðagreiðsla skal vera leynileg. Tilkynna skal landsstjórn skriflega um slit klúbbs.

3.12 TRÚARAFSTAÐA

Klúbbar skulu ekki skipa sér í trúflokka.

3.13 STJÓRNMÁLASKOÐANIR

Klúbbar skulu ekki skipa sér í stjórnmálaflokka.

4. FULLTRÚARÁÐ

4.1 FULLTRÚARÁÐ

Fulltrúaráðið er skipað forseta, sem er jafnframt formaður fulltrúaráðs, og formönnum og varaformönnum hinna einstöku klúbba.

4.2 STARFSSVIÐ FULLTRÚARÁÐS

Fulltrúaráðið hefur æðsta vald í öllum málum, í samræmi við lög RTÍ, og getur það látið boða til landsþings sem opið er öllum félögum klúbbanna og veitt því ákvörðunarvald ef svo ber undir.

4.3 FUNDIR FULLTRÚARÁÐS

Fulltrúaráð skal halda minnst 3 fundi á starfsári auk aðalfundar. Forseti boðar til fundar, undirbýr og sendir út dagskrá minnst 3 vikum fyrir fund. Auk forseta eiga aðrir landsstjórnarmenn sæti á fulltrúaráðsfundum með málfrelsi og tillögurétt. Staðgengil fulltrúa má senda með skriflegu umboði fulltrúans.

Félagar í RTÍ hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum fulltrúaráðs.

4.4 AÐALFUNDUR FULLTRÚARÁÐS

Forseti boðar formönnum og varaformönnum klúbbanna aðalfund og niðurröðun mála á fundi minnst þremur vikum fyrir aðalfund. Mál þau, er klúbbar óska eftir að verði tekin fyrir verður að senda landsstjórn minnst 1 mánuði fyrir aðalfund nema um lagabreytingu sé að ræða, sjá gr. 1.7.

Dagskrá aðalfundar er:

 1. Kjósa fundarstjóra.
 2. Velja fundarritara.
 3. Samþykkja kjörbréf.
 4. Samþykkja fundarboð, dagskrá og fundargerð síðasta fundar.
 5. Ársskýrsla landsstjórnar og embættismanna.
 6. Reikningar RTÍ.
 7. Ársskýrslur klúbbformanna.
 8. Lagabreytingar.
 9. Kjósa skoðunarmann reikninga.
 10. Önnur mál.
 11. Stjórnarskipti.

Kjörgengir fulltrúar á aðalfundi eru fráfarandi formenn og fráfarandi varaformenn klúbbanna og forseti eða fulltrúar þeirra með skriflegt umboð.

4.5 ATKVÆÐAGREIÐSLUR FULLTRÚARÁÐS

Einfaldur meirihluti ræður í öllum málum, á löglega boðuðum fundum, nema hvað varðar lagabreytingar og slit RTÍ skv. gr. 1.7 og 4.10. Í þeim tilvikum, þar sem atkvæði eru jöfn, ræður atkvæði forseta.

Við kosningu í fulltrúaráði skal forseti skila sínu atkvæði í lokuðu umslagi. Komi til þess að kosningar falli á jöfnu og þurfi að nota atkvæði forsetans, opnar kjörstjóri umslagið og þar með ráðast útslitin í kosningunni. Þessu atkvæði skal svo eytt með öðrum kjörgögnum eftir samþykki fulltrúaráðsins. Á þennan hátt er tryggt að atkvæði forsetans er leynilegt en ráði að engu síðu úrslitum ef kosning fellur að jöfnu milli frambjóðenda.

Siðameistari er kjörstjóri og skipar með sér tvo menn í kjörstjórn til að annast talningu. Siðameistari ber ábyrgð á því að kjörgögnum sé eytt eftir að útslit liggja fyrir með leyfi fulltrúaráðsins.

Siðameistari er ábyrgur fyrir að koma með kjörgögn og að þau séu á aðgengilegu formi. Þannig að það þurfi aðeins að haka við nafn þess frambjóðanda sem kjörinn fulltrúi vill kjósa.

4.6 KOSNING LANDSSTJÓRNAR

Fulltrúaráð kýs varaforseta, gjaldkera og IRO í landsstjórn á næsta fundi á undan aðalfundi. Gjaldkera má kjósa til tveggja ára í senn. IRO fulltrúi er kjörinn sérstaklega í eitt ár í senn, og skal ekki sitja lengur en 2 ár. Forseta má ekki endurkjósa sem forseta þrjú næstu kjörtímabil.

4.7 REKSTRARÁÆTLUN OG ÁRGJÖLD RTÍ

 1. Rekstraráætlun starfsársins skal leggja fram á fyrsta fundi fulltrúaráðs, til umfjöllunar og afgreiðslu.
 2. Árgjöld, samkvæmt gr. 3.10, eru grundvölluð á rekstraráætlun starfsársins.

4.8 KOSNING HEIÐURSFÉLAGA

Fulltrúaráð getur útnefnt heiðursfélaga á fundi sínum. Valið er æðsti heiður sem RTÍ getur veitt og getur sá aðeins hlotið, sem hefur sérstaklega þjónað RTÍ.

4.9 BROTTREKSTUR KLÚBBS

Fulltrúaráð getur eftir ábendingu landsstjórnar rekið klúbb úr samtökunum.

Fulltrúar klúbbsins í fulltrúaráðinu hafa ekki atkvæðisrétt í því máli.

4.10 UM SLIT Á STARFSEMI RTÍ

Atkvæðagreiðsla um slit á starfsemi RTÍ fer fram á fulltrúaráðsfundi og þarf ¾ hluta atkvæða til samþykktar. Atkvæðagreiðsla skal vera leynileg.

5. LANDSSTJÓRN

5.1 LANDSSTJÓRN

 1. Landsstjórn er skipuð 4 mönnum, forseta, varaforseta, gjaldkera og IRO fulltrúa.
 2. Starfstími er eitt ár.
 3. Varaforseti er sjálfskipaður forseti næsta árs.

5.2 STARFSSVIÐ LANDSSTJÓRNAR

Landsstjórn er framkvæmdastjórn RTÍ og framkvæmir eftirfarandi:

 1. Sér um daglega stjórn RTÍ og er fulltrúi RTÍ utanlands sem innanlands.
 2. Sér um að lögum sé framfylgt og að klúbbar starfi.
 3. Er ábyrg fyrir og sér um reikninga og fjárhag RTÍ.
 4. Undirbýr fundi fulltrúaráðs.
 5. Sér um að framfylgja ákvörðunum fulltrúaráðs RTÍ og Round Table International.
 6. Samræmir aðgerðir nefnda, ráða og klúbba í RTÍ.

5.3 STÖRF FORSETA

Störf forseta eru:

 1. Sjá um daglegan rekstur RTÍ.
 2. Boða til fulltrúaráðsfunda og hlutast til um stjórnun þeirra og annarra funda á vegum fulltrúaráðs.
 3. Sjá um að fundargerðir séu færðar um fundi stjórnar og fulltrúaráðs.
 4. Sjá um að undirrituð fundargerð frá fulltrúaráði verði send klúbbunum, eða birt félögum á annan hátt, svo sem með rafpósti, ekki seinna en þremur vikum fyrir næsta fulltrúaráðsfund.

5.4 ATKVÆÐAGREIÐSLUR LANDSSTJÓRNAR

Við öll mál sem koma til atkvæðagreiðslu í landsstjórn, ræður einfaldur meirihluti. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði forseta. Ef tveir stjórnarmeðlimir krefjast þess, skal senda mál til afgreiðslu fulltrúaráðs. Við kosningu í fulltrúaráði skal forseti skila sínu atkvæði í lokuðu umslagi. Komi til þess að kosningar falli á jöfnu og þurfi að nota atkvæði forsetans, opnar kjörstjóri umslagið og þar með ráðast úrslitin í kosningunni. Þessu atkvæði skal svo eytt með öðrum kjörgögnum eftir samþykki fulltrúaráðsins. Á þennan hátt er tryggt að atkvæði forsetans er leynilegt en ráði engu að síður úrslitum ef kosning fellur að jöfnu milli frambjóðenda.

Siðameistari er kjörstjóri og skipar með sér tvo menn í kjörstjórn til að annast talningu. Siðameistari ber ábyrgð á því að kjörgögnum sé eytt eftir að úrslit liggja fyrir með leyfi fulltrúaráðsins.

Siðameistari er ábyrgur fyrir að koma með kjörgögn og að þau séu á aðgengilegu formi. Þannig að það þurfi aðeins að haka við nafn þess frambjóðanda sem kjörinn fulltrúi vill kjósa.

6. MERKI, FÁNAR, KEÐJUR, ORÐUR

6.1 MERKI RTÍ

Merki RTÍ er hringlaga skjöldur að þvermáli 1000. Merkið er í tveimur litum, aðallit og grunnlit. Yst er hringur að þykkt 12, en innst er hringlaga skífa að þvermáli 420 með mynd af gjósandi eldfjalli. Svæðinu þar í milli með ytra þvermáli 956 og innra þvermál 440, er skipt upp í 24 geira og er annarhver geiri í lit. Svæðið er hreinskorið með tveimur hringjum, ytri hringur að þykkt 8 og innri að þykkt 10. Geirar í höfuðáttir eru í grunnlitunum og koma 4 gáraðar línur, er tákna öldur, í norður. Litir í merki RTÍ eru svartur sem aðallitur og silfur sem grunnlitur. Gráan eða grárastaðan lit má nota sem grunnlit á pappír, efni og þegar merkja á fatnað og þessháttar hluti sem ætlaðir eru til minja og gjafa. Hægt er að leggja breytingar á merki undir landsstjórn hverju sinni til samþykktar.

6.2 MERKI KLÚBBA

Í merki klúbba skal merki RTÍ koma fram og stærð þess skal ekki vera minni en fjórðungur stærsta þvermáls klúbbmerkis. Ný merki skulu sendast fulltrúaráði til samþykktar.

6.3 FÁNAR

Fánar RTÍ eru:

 1. Landsstjórnarfánar
 2. borðfáni
 3. veggfáni
 4. útifáni

Í fánum landsstjórnar komi fram merki RTÍ og orðin „Round Table Ísland“ umhverfis það. Í borð- og útifána komi merkið í miðjan fána.

Í gerð borðfána landsstjórnar skal koma lóðréttur bekkur í íslensku fánalitunum, ofan og neðan merkis RTÍ. Bekkurinn skal vera jafnbreiður merkinu. Fáninn skal vera tvöfaldur og skal íslenski fáninn vera á bakhlið.

Útifáni skal vera í hlutföllunum 1,5 á móti 2,4 og merki RTÍ sé 0,5.

 

 1. Klúbbfánar

Í gerð klúbbfána komi fram merki RTÍ, nafn Round Table eða skammstöfunin „RT“ og klúbbnúmer, ásamt heiti staðarins þar sem klúbburinn er staðsettur.

Klúbbfánar skulu hljóta samþykki fulltrúaráðs.

6.4 KEÐJUR

Landsstjórn og klúbbar eiga keðjur sem bornar eru af embættismönnum. Keðjur eru tákn um embætti manna í Round Table.

6.5. ORÐUR

Orður eru viðurkenningarpeningar sem veittir eru heiðursfélögum RTÍ, fráfarandi formönnum klúbba, fráfarandi forseta, fráfarandi IRO, fráfarandi gjaldkera landsstjórnar, fráfarandi embættismönnum landsstjórnar og sérstök heiðursorða klúbbanna sem þeim er heimilt að veita fyrir vel unnin störf í þágu klúbbs.

6.6 VARÐVEISLA SKJALA

Forseti RTÍ ber ábyrgð á því að fundagerðum fulltrúaráðsfunda og aðalfundar RTÍ, félagatali og ársskýrslum klúbba, vegna þess starfsárs þegar hann er forseti, sé komið til Þjóðaskjalasafns Íslands til varðveislu.

 

Lög þessi taka gildi frá og með 1. október 1991
Samþykkt á aðalfundi fulltrúaráðs 27. apríl 1991
Endurútgefin með breytingum þann 16. október 1998
Endurútgefin með breytingum þann 25. nóvember 1999
Endurútgefin með breytingum þann 15. nóvember 2005
Endurútgefin með breytingum þann 3. maí 2008
Endurútgefin með breytingum þann 24. apríl 2010
Endurútgefin með breytingum þann 3. maí 2014
Endurútgefin með breytingum þann 2. maí 2015

Support