Þórmundur Helgasson – Framboðsgrein til varaforseta

Kæru félagar,

Frá því ég kynnti framboð mitt til varaforseta á síðasta októberfundi hef ég mætt á fundi hjá þó nokkrum klúbbum og hefur það verið einstök ánægja að upplifa í raun það sama og á fundum hjá mínum eigin klúbbi – vináttu. Ég mun halda áfram að sækja klúbbana heim núna í janúar og reyna að kynnast ykkur sem flestum.

 

Helstu áherslur

  • Efla innlenda starfið enn frekar. Leitast við að heimsækja sem flesta klúbba ár hvert og kynna með því starf landsstjórnar og efla áhuga á því.
  • Virkja góðgerðaklúbbinn betur og vekja athygli manna á því sem þar er hægt að gera.
  • Halda áfram með það góða erlenda starf sem hefur verið í gangi síðustu ár og sjá til þess að við séum áfram vel sýnilegir á þeim vettvangi.

 

Um mig

Ég er fertugur tölvunarfræðingur, bý í Mosfellsbæ ásamt eiginkonu minni og þremur börnum. Ég er einn af nokkrum stofnendum og eigendum hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækisins HUX Ráðgjöf, þar sem ég starfa sem hugbúnaðarsérfræðingur og ráðgjafi. Auk þess að forrita flesta daga er ég einnig stjórnarformaður fyrirtækisins.
Ég hef verið félagi í Round Table í 5 ár. Ég hef frá upphafi verið virkur í mínum klúbbi, RT-1, og hef á síðustu þrem árum sinnt landsstarfinu með mætingu á flesta fulltrúaráðsfundi.

Ég fór út á 90 ára afmæli Round Table í Bretlandi síðasta vetur ásamt góðum hópi íslenskra teiblara og voru það mín fyrstu kynni af erlenda starfinu. Eins og með annað í þessum félagsskap þá varð ég ekki fyrir vonbrigðum og stefni á að mæta á sem flesta erlenda viðburði, sama hvernig kosning fer.

Einnig hef ég hitt erlenda teiblara á ferðalagi hér heima, Þjóðverja, Austurríkismenn og Indverja. Allir voru þeir áhugasamir um land og þjóð og allir tilbúnir að taka á móti manni í sínu heimalandi.

Traust er það orð sem myndi líklega lýsa mér best. Ég auðvelt með að ávinna mér traust fólks og stend undir því, sem ég held að sé eitt það mikilvægasta í lífinu. Round Table hefur gefið mér margt, eins og eflaust ykkur flestum, og því væri það mér mikill heiður að gefa eitthvað til baka með því að þjóna Round Table á Íslandi sem varaforseti og síðar forseti af fullum krafti, þið getið treyst því.

 

Ykkar í teibli,
Þórmundur Helgason
Formaður RT-1

Be the first to comment

Leave a Reply

Support