Framboð til varaforseta 2017

Kæru félagar í Round Table.

Það er mér sannur heiður og ánægja að fá að tilkynna framboð mitt til embættis varaforseta Round Table Ísland. Vignir Steinþór Halldórsson heiti ég og hef verið virkur í hreyfingunni frá ómunatíð og gefið henni mikið af mínum tíma af sannri ánægju og gleði. Round Table Ísland er félagsskapur sem ekki verður metinn til fjár, þar tengjast menn sterkum böndum, þangað sækja menn fróðleik og frama og þar komast menn að því hvar Davíð keypti ölið.

Ég hef, eins og áður sagði, verið mjög virkur í Round Table síðan 1998 þegar ég kom fyrst inn í minn klúbb, sexuna. Ég hef sótt 13 Evrópufundi með þeim ágæta hópi, 1 alþjóðafund á Indlandi, NTM fundi á Íslandi og í Danmörku, óteljandi fulltrúaráðsfundi og fjölda árshátíða innanlands. Ég hef auk þess verið siðameistari landsstjórnar og að sjálfsögðu varaformaður og formaður í mínum klúbbi.

Ég get því fullyrt að ég þekki starf hreyfingarinnar alveg ofan í kjölinn og hef góðar tengingar, bæði innanlands innan Round Table Ísland og við aðila í samtökunum erlendis sem getur komið sér vel fyrir hreyfinguna hér heima. Round Table Ísland þarf að taka öflugan þátt í alþjóðastarfi hreyfingarinnar og stimpla sig þar inn af krafti. Þar koma góð fyrri kynni við aðra Round Table félaga sér vel.

Reynsla, þekking og tengsl eru mikilvæg í starfi varaforseta og það er á þeim grunni sem ég ætla að byggja í starfi mínu sem slíkur. Sterkir klúbbar eru grunnstoðir landshreyfingarinnar og mikilvægt er að hlúa vel að þeim. Ég þekki starf klúbbanna vel eftir að hafa leitt starfið í mínum klúbbi og veit hvað þarf til svo að þeir blómstri. Á minni vakt verður þess gætt að klúbbarnir séu virkir og að á milli þeirra séu góð og mikil tengsl sem mun svo aftur skila sér inn í landsstarfið.

Persónuleg samskipti eru mikilvæg í starfi sem þessu og góður eiginleiki að geta átt samtöl við menn sem byggja upp trúnað og traust. Til þess að menn viti meira um mína persónulegu hagi þá er ég fertugur húsasmíðameistari, fæddur í Reykjavík en bý í Kópavogi í dag. Ég er kvæntur og á þrjú börn á grunn- og framhaldsskólaaldri. Ég er einn af eigendum byggingaverktakafyrirtækisins MótX ehf. sem er vaxandi fyrirtæki á þeim markaði. Ég hef gegnt fjölda trúnaðarstarfa í ýmsum félagsmálum öðrum, var m.a. formaður nemendafélags FB. Reynsla mín af félagsmálum nær því vel út fyrir Round Table þó að sú reynsla sé sú sem þyngst vegur.

Ég vil því óska eftir stuðningi ykkar við framboð mitt til varaforseta og vona að ég hljóti til þess brautargengi. Ég held að mitt lóð á vogarskálarnar muni vega þungt og það framlag verði hreyfingunni til góðs og framdráttar.

Be the first to comment

Leave a Reply

Support