Ferðasaga RT-11

Það var eldsnemma að morgni föstudagsins 3. júní 2017 sem tveir félagar úr RT-11 í Vestmannaeyjum lögðu af stað frá Hafnarfirði. Ferðinni var heitið til Keflavíkur og þaðan til Amsterdam. Raunar var það svo eldsnemma að bjórinn á „Loksins“ hefur verið betri!

Flugið út gekk áfallalaust fyrir sig, þó „budget“ áætlun félaganna hafi ekki leyft þeim að sitja saman heldur á sitthvorum stað í flugvélinni gerðu menn eins vel úr því og mögulegt var.
 
Þegar til Amsterdam var komið var haldið á bílaleiguna til að leysa út bílinn sem hafði verið pantaður mánuði fyrr. BMV skildi það vera, ekkert minna þegar átti að keyra um Þýskan autobahn. Þar tilkynnti okkur mjög þægilegur og hjálpsamur Hollendingur að því miður væru engir BMV bílar eftir hjá sér. Jafnvel þótt við hefðum pantað BMV, þá stæði í smáa letrinu: „or similar“. Nú var úr vöndu að ráða. Volvo eða Volkswagen. Ekki leist okkur á blikuna en hann bauð okkur að upgrad-a pöntunina og við ókum af stað á Audi TT – blægjubíl. Fullkominn bíll fyrir tvo Íslendinga til að spæna upp þýsku
hraðbrautirnar!
Og Audi-inn gat heldur betur spænt malbikið! Þegar inn í Þýskaland var komið var meðalhraðanum haldið í 150 – 160 km/klst, enda vegir þar í landi gerólíkir því sem við þekkjum hér á landi. Við komum inn í Osnabruck að verða 17:00 að staðartíma, tékkuðum okkur inn á hótelið, hittum hressa teiblara úr RT-11 í Noregi, skiluðum af okkur töskunum og héldum á hótelbarinn, þar sem fjölmargir þýskir teiblarar sátu og réðu ráðum sínum. Menn voru ákaflega vinalegir í garð þessara
tveggja félaga úr norðri og tóku okkur vel, spjölluðu við okkur og lýstu því hvað þeir væru ánægðir með að við værum mættir, heilir á höldnu eftir langt ferðalag.
Seinna um kvöldið var svo Welcome-party á skemmtistað bæjarins, Alando. Þar var mikið drukkið og spjallað, en þreyta eftir daginn sagði fljótt til sín. Því var ekki staldrað lengi við á þessum stórmerkilega bar, heldur héldum við fljótlega heim á hótel þar sem við söfnuðum kröftum um nóttina, fyrir átökin sem biðu daginn eftir.
Laugardaginn tókum við snemma, vorum komnir út af hóteli um 10 leytið og héldum í miðbæinn. Eftir að hafa þrætt nokkrar verslanir tókum við upp á því að þræða pöbbana. Niðurstaða þess rölts var að bjórinn er góður í Þýskalandi!
Um kvöldið var síðan komið að AGM, 750 manna árshátíð Round Table klúbba í Þýskalandi. Gríðarlega mikil stemning var á svæðinu og umgjörð þessarar árshátíðar var með eindæmum flott. Eftir að hefðbundinni skemmtun lauk tók við rölt okkar um salinn þar sem við buðum þýskum bræðrum okkar Opalskot og Brennivín. Sömuleiðis gáfum við RT klúbbnum í Osnabruck brennivínspela og staupglös sem þakklætisvott fyrir frábærlega heppnaða árshátíð. Um leið hvöttum við alla sem við töluðum við til þess að skrá sig og mæta á EMATM í Vestmannaeyjum, 6. júlí 2017. Mikil hamingja var með þetta uppátæki okkar og hvar sem við komum var okkur vel tekið.
Á dauða mínum átti ég von, en að hitta Roger Moore heitinn, sjálfan James Bond, átti ég ekki von á. Ég gekk rakleiðis til hans og spjölluðum við lengi saman. Í ljós kom að þetta var alls ekki njósnari hennar hátignar, heldur þýskur old-teiblari sem var svona sláandi líkur gamla Bond. Dæmi nú hver fyrir sig!
Eftir árshátíðina var síðan haldið í bæinn þar sem pöbbar staðarins voru teknir út nánar. Að lokum enduðum við heima á hóteli, dauðuppgefnir eftir daginn. Á sunnudeginum var vaknað um 9 leytið og eftir morgunmat, kveðjustundir útvaldra var haldið aftur út á hraðbrautina og stefnt til Amsterdam á ný. Þangað vorum við komnir um kl. 14. Þar sem flugið heim var ekki fyrr en seint það kvöld ákváðum við að skila bílnum, geyma töskurnar á flugvellinum og halda inn í borgina og skoða hana. Í raun má segja að Amsterdam sé upplifun útaf fyrir sig, þar sem ýmislegt er að sjá undir rauðum borgarljósunum.
Við lentum á Íslandi um klukkan hálf 11 að kvöldi sunnudagsins. Frábærri ferð til Þýskalands var lokið. Þetta var jafnframt fyrsta ferð okkar beggja á vegum Round-Table. Ég get fullyrt það að þetta á ég eftir að gera aftur! Ég hvet alla teiblara til þess að prófa að fara í svona ferð, hvert svo sem farið er. Með góðan ferðafélaga við hlið var þessi ferð algerlega ógleymanleg!
Njáll Ragnarsson

Be the first to comment

Leave a Reply

Support