Euro5 í Bournemouth

Á kuldarlegum sunnlenskum sumarmorgni í júní mættu þrír galvaskir ferðalangar upp í Leifstöð klárir að stíga upp í flugvél sem fljúga átti til Bretlands þar sem Euromeeting fimmuklúbba var haldið þetta árið, þ.e. í Bournemouth.

Við komuna á Heathrow beið okkur langferðabifreið sem átti eftir að burra um þjóðvegi, stræti og torg í hinni sívinsælu breska sveitasælu sem margir sækjast í. Fyrir okkur sem þarna sátum gafst þarna gott tækifæri til að hlaða batteríin. Strumparútan, sem tók svo við okkur við komuna tilBournemouth og flutti okkur upp á hótel, bar þess merki að dagana áður hafði hún ferðast um nærliggjandi svæði í hinum margrómaða Pre-Tour. Þegar dyrnar á rútunni opnuðust mátti sjá og finna að hér hafði verið fjör. Snöpp og myndir sýndu það sömuleiðis vel að íslenski hópurinn sem mætti á undan okkur hafði haldið uppi verulega fjöri en hópurinn m.a. heimsótti Stonehenge og svo mekka Round Table þar sem hin viðfræga hringborðstafla Arthúrs hangir.

Fyrir aðila sem sækir sinn fyrsta erlenda fund að þessari stærðargráðu var þetta nokkuð viðbrigði að ganga inn í hóp erlendra teiblara sem maður hafði aldrei áður hitt áður, en það sem kom þó mest á óvart var að manni leið eins og þetta væru bestu vinir mínir og félagar og búinn að þekkja þá þó nokkuð lengi. Faðmlög, handabönd, hlátur og brosandi andlit. Nánast eins og vera mættur á ættarmót.

Bournemouth hópurinn sem hafði það verkefni að hýsa þennan hitting stóð sig ótrúlega vel og skemmtu sér allir ótrúlega vel. Þar sem ekki var hægt að bjóða í heimapartý var efsta hæðin á næsta hóteli tekið á leigu þar sem gestum var boðið upp á veitingar í fjótandi og föstu formi. Daginn eftir hafði hópurinn skipulagt til Poole þar sem farið var um borð í bát sem hélt út úr höfninni, framhjá Brownsea eyju og meðfram hvítu klettana áður en farið var haldið aftur til hafnar þar sem snæddur var ekta enskur hádegismatur, fiskur og franskar.

Þvílíkt lostæti sem dróg athygli nokkra máva og áttu nokkrir fótum fjör að launa fyrir ágengi þeirra.

Eftir að hafa klárað hádegismatinn og náð smá afslöppun við sjávarsíðuna var haldið á breskt brugghús. Því miður kom svo í ljós að þetta brugghús var í raun ekki enn í fullum rekstri eftir að hafa verið selt og keypt af nýjum eigendum. Var því ekki mikið að sjá en þó var sá bjór sem var þó til staðar og boðið upp á ekki beint að heilla gesti; enda Bretar því miður þekktir fyrir einstaklega sérkennilega bjóra miðað við okkar staðla. Um kvöldið var svo boðið í grill við höfnina í Bournemouth þar sem löndin voru með skemmtiatriði. Íslendingarnir gjörsamega trylltu liðinn en það var enginn annar en Ísrael sem á endanum stal senunni með dans í þröngum líkamsræktarbuxum.

Fundurinn sjálfur var haldinn í húsnæði Frímúrara þar sem farið var yfir hefðbundin mál. Löndin kynntu hvað þau hefðu verið búið að gera og var boðið upp á ýmsar veitingar eins og snígla og snafsa frá viðkomandi löndum. Þegar röðin kom að Íslandi að kynna sitt starf var nokkuð ljóst að RT-5 Akureyri hefur haft nokkra sérstöðu meðal aðra fimmuklúbba. Við vorum nokkuð fjölmennur hópur miðað við aðra klúbba, vorum með mjög virkt starf og mikill samvinna. Þetta sýndi sig vel á fundinum því við vorum þó nokkuð margir þarna, m.a. hlutum viðurkenningu fyrir lengsta ferðalag miðað við fjölda og fjarlægð. Eftir kynninguna var Auðunn okkar Níelsson fyrrverandi formaður spurður bak og fyrir um starfið og svaraði því að mestu snilld.

Milli fundar og galakvölds gafst tækifæri til að leika sér smá og njóta bæjarinns. Íslenski hópurinn auðvitað nýtti sér tækifærið og fann sér kokteilbar þar sem var tilboð á barnum, tveir drykkir á verði eins. Sátum við þar nánast fram á síðustu stundu áður en við þurftum að mæta í fordrykk fyrir gala kvöldið. Ekki grín því skv klukku átti fordrykkur að byrja 15 mín síðar og átti eftir að sturta og klæða sig í sparifötin.

Galakvöldið var nokkuð hefbundið. Þar sem um afmæli var að ræða var mikið um eldra fólk mjög vel klætt og ótrúlega breskir eins og gefa skylja. Það sem kom því á óvart var að á borðunum var búið að koma fyrir pokum með pappírskúlum og pappírshólkum sem gestir áttu að nota til að skjóta í allar áttir. Það leið ekki langur tími þangað til fyrstu kúlurnar flugu um salinn og lét íslenski hópurinn sig ekki vanta í þeim bardaga. Eflaust rann þá upp fyrir þeim sem sáu um skipulagningu á kvöldinu að ekki væri sniðugt að setja íslendinga í svona aðstæður því okkar borð skaut linnulaust um allan salinn og var farið í leiðangur um salinn til að týna upp ný skotfæri sem dreifðust um um salinn. Þegar ein slík kúla hitti eldri hjón í andlitið bjúggumst við nú að dagar okkar væru taldir, en ótrúlegt nokk sneru hjónin sér við og skutu sjálf tilbaka með bros á vör. Reyndar í aðra átt því þau líklegast grunuðu ekki að þægu og stilltu Íslendingarnir gerðu svona lagað. Galakvöldið fór að öðru leyti nokkuð friðsamlega fram og ríkti mikil gleði á dansgólfinu eftir að matnum lauk með frábærri hljómsveit.

Næsti evrópuhittingur fimmuklúbba verður á næsta ári haldin í Nice, Frakklandi og þar eftir á Kýpur. Það er því nokkuð spennandi hittingar framundan hjá fimmunum og er nokkuð klárt mál að eftir að hafa upplifað sinn fyrsta evrópuhittingin að undirritaður lætur sig ekki vanta á næstu hittinga. Það er nokkuð rétt þegar sagt er að maður hefur ekki upplifað Round Table fyrr en maður fer að ferðast og kynnast erlendum teiblurum og klúbbum. Klúbbastarfið er frábært, landsstarfið er snilld en erlenda starfið er algjör geggjun.

 

Daníel Sigurður Eðvaldsson
Ritstjóri RTÍ og IRO RT-5

Be the first to comment

Leave a Reply

Support