Árskýrsla landstjórnar 2015-2016

Starfsárið í ár er svo sannarlega búið að vera viðburðarríkt og skemmtilegt. Við höfum allir sem einn lagt okkur mikið fram til þess að halda uppi einkunnarorðum Round Table – Tileinka – Aðlaga – Bæta í okkar starfi í vetur.

Öguð vinnubrögð og fagmennska var eitthvað sem við lögðum upp með á okkar fulltrúaráðsfundum í ár og get ég stoltur sagt að það hafi tekist með eindæmum vel. Formenn og Varaformenn hafa sótt alla fulltrúaráðsfundina vel og því lítið verið um útgefin umboð af þeirra hálfu. Klæðaburður fundarsetumanna hefur lagast stórkostlega með tímanum og er það mjög ánægjulegt að sjá. WORK HARD PARTY HARD var oft nefnt í vetur og eftir því orðatiltæki hafa allir unnið gríðarlega vel og stuðningur fulltrúaráðs verið mikill þegar stórar breytingar hafa verið gerðar eins og með breytingu á aðalfundartíma sem er nú.

Hreyfingin hefur aldrei verið stærri en hún er í dag, hátt í 290 félagar voru gefnir upp á febrúarfundi og síðan þá hafa verið gefin út nokkur ný aðildarskjöl til viðbótar og er ég handviss um að við séum rétt að detta í 300 félaga markið miðað við stöðuna í dag sem ætti að vera markmið okkar næsta starfsárs. 40 aðildarskjöl nýrra félagsmanna hafa verið undirituð af forsetanum í vetur og verð ég að lýsa gríðarlegri ánægju með það enda þurfum við amk 30 nýja félaga inn á hverju ári til að viðhalda Round Table á Íslandi um ókomna framtíð.

Allir höfum við unnið okkar vinnu eins vel og við teljum okkur geta. Embættismenn landstjórnar sem oft vilja gleymast, hafa sannarlega skilað sínu hlutverki vel í vetur og er það gríðarlega dýrmætt fyrir hreyfinguna að þessir félagar okkar séu vel virkir í sinni stöðu:

  1. Hákon Jónsson er að klára sitt annað ár sem siðameistari landstjórnar og m.a. innleiddi frábær vinnubrögð á 2. Fulltrúaráðsfundi þegar hann tók sektir í það form sem mig hefur lengi langað að sjá hér á landi en það er að hafa sektir fyrirfram ákveðnar upphæðir og sektarmenn fái skot eða BMW fyrir án þess að vera trufla fundarhöld mikið á fundi. Því miður þá var þetta eini fundurinn hans með okkur þar til nú en ég vona að hann komi vitinu strax fyrir hjá verðandi siðameistara fyrir næsta starfsár JLangar mig að nota tækifæri hér og þakka Konna siðameistara fyrir hans góða starf sem siðameistari hreyfingarinnar og jafnframt óska honum til hamingju með óléttuna og hver veit nema þar leynist öflugur Teiblari eftir 20 ár 🙂   En sektir siðameistara hafa ávallt runnið til góðra málefna að vali umsjónarklúbbs og tel ég að við höfum safnað saman hátt í 500þ. í vetur sem er frábært innlegg í okkar góða starf sem við erum að gera hér.
  2. Ragnar Sigurðsson vefstjóri hefur unnið gríðarlega vel í vetur með þá vinnu sem Örn fyrrverandi vefstjóri byrjaði á, þ.e. að betrumbæta heimasíðu Round Table og gera hana mun aðgengilegri en áður og opna fyrir heimasíðusvæði allra klúbba landsins. Þessi nýja heimasíða er að koma virkilega vel út og eru heimsóknir inná hana milli 20-70 á dag. Í kjölfarið þá er spurning hvort við leggjum til að RTÍ appið verði lagt af, það kostar rosalega mikið eða um 50.000kr á ári og nýja vefsíðan gerir í raun það sama og appið er að gera. Raggi er ekki með okkur þessa helgi þar sem hann er á Indlandi og biður fyrir góðri kveðju til okkar allra og langar mig að þakka honum kærlega fyrir gott starf þennan veturinn.
  3. Ritstjórinn okkar hann Þórhallur Harðarson vann gríðarlega vel þessi tvö ár sem hann hefur þjónað þessu embætti. Man ég ekki eftir jafn duglegum ristjóra sem lagði mikið kapp á að halda heimasíðunni okkar lifandi og auka heimsóknir hennar. Í dag eru heimasíður almennt í alltaf meiri og meiri samkeppni við Facebook og því minni traffík inná þær en Þórhallur hefur verið iðinn við að senda inn margvíslegar upplýsingar sem nýtist hverjum og einasta okkar. Fyrra árið var hann mjög duglegur að ýta á klúbba að skila greinum um starfið og svo í ár hefur hann unnið hart að því að upplýsa alla hreyfinguna með góðum greinum úr lögum og siðareglum RTÍ. Langar mig að þakka Þórhalli kærlega fyrir vel unnið verk og er þetta enn ein rósin í hnappagatið hjá honum fyrir hans störf innan RTÍ.
  4. Að lokum hefur Óskar Þór Vilhjálmsson verslunarstjóri unnið vel úr erfiðu sjoppubúi. Einhverra hluta vegna virðist sjoppan ávallt skila minna en vonir standa til af henni. Að vísu eru til allmargar birgðir sem við þurfum að vera duglegir að selja út og fyrir framtíðina tel ég við þurfum að reyna skilgreina hlutverk sjoppu RTÍ betur og hvað sé ætlast til af henni í Round Table starfinu. Erfitt er að reka hana eins og staðan virðist ávallt vera en hún ætti í raun að reka sig sjálf og það ávallt erfitt að gera skemmtilegar viðbætur í vöruframboði þegar ekkert eigið fé er til að vinna með. Óskar er aftur drengur góður og er ég viss um að hann nær að byggja góðan grunn á næsta ári fyrir næstkomandi verslunarstjóra svo við getum farið að sjá ávinning hennar til framtíðar.

Allt eru þetta frábærir fulltrúar Round Table á Íslandi sem hafa unnið gríðarlega vel fyrir hreyfinguna og langar mig að þakka þeim fyrir vel unnin störf í þágu RTÍ 🙂

Varðandi landstjórnarfélagana mína þá get ég ekki annað en verið gríðarlega lánsamur að hafa þessa kappa mér við hlið og höfum við sannarlega átt góðar stundir saman. Mikið hefur verið afrekað og mikið hefur verið ferðast. Fyrsta afrek okkar var klárlega að sigra kosningu í Kýpur þegar við Guðjón IRO fórum, ásamt eiginkonu minni og dóttur. Unnum við Ungverjaland í mikilli kosningabaráttu um EMA fund 2017 sem haldinn verður í Vestmannaeyjum á Goslokahátíð næsta árs. RTIWM var svo í ágúst í Visby, Svíþjóð, og fórum við Gaui IRO, Gulli VP og Baldvin RT3 saman í virkilega flotta ferð saman. Kom Baldvin gríðarlega sterkur inn með eina mestu reynslukaup sögunnar á fyrsta degi þegar hann birtist með blautþurrkur í hús eftir verslunarferð 🙂

Þetta var fyrsti alheimsfundurinn minn og langt í frá að vera sá síðasti enda gerist þessir fundir ekki flottari hvað allt utanumhald varðar í Teiblinu.

Beint í framhaldi af þessum alheimsfundi var svo All In Side by Side verkefni tekið með LCÍ á Akureyri þegar um 500 konur komu hingað og var það virkilega gaman að sjá hversu mikið við Teiblararnir á Akureyri tókum þátt í því sem og landstjórn okkar.

Fagnað var svo 75 ára afmæli Round Table í Danmörku áður en 45 ára afmæli RT1 og RTÍ var fagnað með góðum gestum hér heima. Fleiri hefðu sannarlega mátt taka þátt í þessu afmæli okkar en við stefnum bara á frábært 50 ára afmæli þess í stað er það ekki? 🙂

2. Fulltrúaráðsfundur í október var negldur sem einn af betri fulltrúaráðsfundum síðustu ára á Fáskrúðsfirði í umsjón RT16. Allt var til fyrirmyndar hjá þeim og helgin öll er klárlega kominn í LEGENDARY flokk RTÍ 🙂

Árinu 2015 var svo lokað með NTM fundinum sem var haldinn í Reykjavík undir diggri leiðsögn Gaua IRO og Sexumanna sem heppnaðist stórkostlega vel. Meðal anannars var lokað fyrir Nordic Fund sem hefur verið ákveðinn baggi síðustu ár hvað skal gera við þann sjóð sem veikur var orðinn.

3. Fulltrúaráðsfundur var haldinn í Reykjavík í umsjón RT2 og var öll umgjörð hans til fyrirmyndar þar. Sérstakt andrúmsloft var á fundinum sjálfum og viðurkennir forsetinn að hann hafi alveg átt betri daga í Teiblinu en þann dag og voru nokkrar ástæður fyrir því. Ólíkar skoðanir viljum við svo sannarlega hafa í Round Table en stundum er gott að staldra aðeins við og skoða heildarmyndina áður en lagt er af stað með jafn miklu offorsi eins og ég tel að var gert þá. Búið og gert og ég tel að við höfum allir lært mikið af þessu og eigum við þess í stað að horfa jákvæðum augum til framtíðar sem sannarlega er björt í Teiblinu hér á landi.

HYM í Ungverjalandi tók svo strax við og vorum við Gaui og Gulli ansi þreyttir eftir þá ferð enda rétt 3 dagar liðnir frá 3. fulltrúaráðsfundinum. Forsetinn var sjéður eftir alheimsfundinn með tipsið hans Baldvins og lagði af stað vel varinn af blautþurrkum sem sannarlega komu sér vel enda fékk hann matareitrun og sat hálfan laugardaginn og alla ferðina heim á dollunni með sáran afturenda 🙂

Að lokum hvað varðar erlend ferðalög var skundað á RT USA AGM og Chartering LC í NYC með minni eiginkonu og frábærum vinum Jóni Ísleifs og Hildi Halldórs eiginkonu hans sem er jafnframt vefstýra í alheimstjórn LCI. Virkilega skemmtileg ferð með frábærum vinum í Teiblinu og Ladies Circles og var þetta góð upphitun fyrir hvað koma skal síðar á þessu ári þegar sama gengi fer á bæði alheimsþing LCI og RTI í sömu ferðinni, fyrst Cape Town í Suður Afríku og svo Nepal sem við munum hitta á fleiri Teiblara úr okkar röðum og stefnir í fjölmenni þar.

En nú erum við saman komnir í lokaslútti starfsvetrarins og má með sanni segja að þessu ári verður lokað með prompi og prakt enda allt lagt í þessa helgi hjá RT5 og LC7. Þrír af okkur í landstjórninni munum starfa áfram í góðri samvinnu á næsta ári undir handleiðslu Gulla sem verðandi forseta RTÍ. Einn af okkur mun þó kveðja hópinn nú og landstjórnarstarfið í heild sinni þar sem hann hefur gjörsamlega klárað öll borðin eins og í Pac Man leiknum forðum daga. Meistari, Guðjón Andri, er að ljúka sínu fimmta ári sem landstjórnarmeðlimur ásamt því að hafa klárað sennilega allt það sem hann getur starfað við í sínum klúbb RT-6. Það verður mikill söknuður að hafa hann ekki á fullu í landstjórnarstarfinu með okkur og sennilega erfiðast fyrir hann sjálfan því Round Table lífið hefur átt hans hug og hjarta síðasta áratuginn og svona harðir Teiblarar finnast ekki á hverju strái. Sem betur fer þá munum við eiga hann á kantinum til nokkurra ára til viðbótar í RT og ef ég þekki hann rétt þá á hann ekki eftir að missa af einum einasta fulltrúaráðsfund þau ár sem hann á eftir í Teiblinu og í kjölfarið halda svo áfram sinni góðri vinnu þegar OT dyrnar opnast fyrir hann 🙂

Ég vil fyrir hönd okkar allra þakka Guðjóni Andra IRO og RT-6 félaga fyrir magnaðan tíma í forystusveit RTÍ undanfarin ár.

Langar mig að gefa þessum vinum mínum í landstjórninni gjöf og hvað telst betra en að forsetinn gefi sjálfan Jón forseta í lit. Þessi útgáfa af Jóni er sérhönnuð fyrir okkur í Round Table af Almari Alfreðssyni RT-5 og er rándýr safngripur sérmerktur með mínu persónulega RT merki og slagorði í vetur sem er FRIENDS FOREVER.

Elsku vinir, mér þykir endalaust vænt um ykkur og þann tíma sem við höfum átt saman í vetur og ég hlakka svo sannarlega til tímanna framundan með nýjum varaforseta um borð í skútunni.

Hvað sjálfan mig varðar þá er ég afar þakklátur fyrir það sem þetta ár hefur gefið mér. Ég fór af stað með miklar væntingar og áskoranir til sjálfs míns í þessu forseta embætti og má segja að allt hafi gengið upp samkvæmt áætlun. Allt byrjaði það í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum þegar mér tókst að hitta alla klúbba á þeim tíma og sigra eina stærstu kosningabaráttu fyrr eða síðar í Round Table á Íslandi. Vinna svo að stofnun RT15 í Skagafirði ásamt mínum stórkostlega klúbb RT-5 gékk upp í fyrra og hef ég fulla trú á að þeir eigi glæsta framtíð meðal okkar þrátt fyrir smá byrjunarerfiðleika.

Afhenta svo sérmerkt íslenskt Vinarhorn í alla klúbba landsins sem ég eyddi löngum tíma í að sjóða og pússa á pallinum eins og Emil í Kattholti í vetur var mikil áskorun sem ég vona svo sannarlega að muni bæta innra starfið eða vinskapinn hjá hverjum og einum klúbb landsins. Einnig gaf ég góð ráð um klúbbstarfið í heimsóknum mínum og reyndi að hvetja framtíðar landstjórnarmenn að fara fram á næstu árum. Er ég strax ánægður að sjá það því fyrsta formlega framboðið til næsta varaforseta fyrir starfsárið 2017-2018 er komið og heyrði að von væri á öðru framboði líka þannig að kosningabaráttan er strax komin á fullt og ef ég þekki þessa menn rétt þá verður ekkert gefið eftir 🙂

Já, þetta er sannarlega búið að vera skemmtilegt, gefandi og oft á tíðum erfitt starfsár sem forseti hreyfingarinnar enda hef ég fyrir utan að vera með á nánast öllum fundum í mínum klúbb farið á 27 auka fundi á þessu starfsári sem ég tel ansi vel gert. Þetta allt myndi ég þó allan tímann gera aftur og aftur ef ég hefði tækifæri til þess því það er ekkert sem toppar þessa skemmtun og vináttu sem lang besti félagskapur ungra karlmanna í heimi getur gefið manni.

Að lokum langar mig að nefna það að fá alla fjóra heiðursfélaga RTÍ frá upphafi til að koma saman nú í fyrsta sinn í sögu RTÍ er mér stórkostlegur heiður. Þetta eru allt miklar fyrirmyndar í okkar starfi sem ég hef litið mikið upp til á mínum árum í hreyfingunni og langar mig að þakka þeim kærlega fyrir að vera hér og gera flotta árshátíðarhelgi stórkostlega með sinni nærveru.

Takk kærlega fyrir mig og megi framtíð Round Table á Íslandi halda áfram að blómstra með nýjum mönnum í landstjórn og fulltrúaráði.

Ykkar Vinur í Teiblinu,

Helgi Rúnar Bragason

Forseti RTÍ 2015-2016

FRIENDS FOREVER

 

 

Be the first to comment

Leave a Reply

Support