AGM Danmörk; ferð frábæra minninga, þynnku og skaðbrenndra skalla

Sælir félagar, þrír hressir teiblarar, tveir frá RT-5 og einn frá RT-16 fóru á AGM í pálmastrandbænum Frederikshavn í Danmörku í maí síðastliðnum. Þá má með sanni segja að okkur hafi liðið eins og við værum komnir á suðrænar slóðir, umkringdir pálmatrjám og í miðri hitabylgju uppá 25°C. Þetta var ferð frábærra minninga, þynnku og skaðbrenndra skalla.

Ég heiti Axel og er búinn að vera meðlimur í Round Table 5 síðan í desember 2017.

Í mínu fyrsta teibli þá útskýrði einn félaginn, Jón Ísleifsson, fyrir mér uppbyggingu Round Table starfsins. Hvernig það skiptist upp í klúbbastarf, landsstarf og alþjóðlegt starf. Hann sagði mér að hann hafi hitt marga teiblara í gegnum alþjóðlega starfið sem margir hverjir hafi sagt það sama; „ég vildi að ég hefði byrjað að ferðast fyrr“. Þessi orð tók ég til mín og ákvað að ég skildi fara all in frá fyrsta degi. Umfram starfið í mínum eigin klúbbi þá hef ég mætt á fundi hjá RT-7, á fulltrúaráðsfund, árshátíð, sumarútilegu og nú AGM í Danmörku.

Þetta var minn fyrsti alþjóðlegi viðburður af mörgum. En jafnframt var þetta síðasta embættisferð góðvinar míns Jóns Ísleifssonar, fráfarandi IRO hreyfingarinnar. Þrátt fyrir að hafa tjáð mér að hann væri hættur að ferðast í bili þá grunar mig að við eigum eftir að ferðast aftur saman á komandi árum.

Við mættum allir á fimmtudeginum á Scandic Hotel The Reef þar sem að við hittum góðvini okkar, þá Alexander Thue og Christoph von Maltzahn, sem heimsóttu okkur einmitt á árshátíð RTÍ helgina áður. Við skelltum í okkur nokkrum G&T og síðan skelltum við okkur í alvöru sundlaugarpartí þar sem gleðin tók öll völd.

Á föstudeginum fórum við í pre-tour, sem var skoðunarferð um Frederikshavn. Við byrjuðum á því að skoða Krudttårnet (byssupúðurturninn) sem er fallbyssuturn byggður á árunum 1686-1690. Þar næst var ferðinni heitið í Bangsbo Fort þar sem er að finna sprengjuskýli byggð af Þjóðverjum í seinni heimsstyröldinni. Síðasti stoppustaðurinn var gróðurhús þar sem kommúnan í Frederikshavn geymir öll pálmatréin yfir vetrarmánuðina. Starfsmenn kommúnunar voru að undirbúa sig í að planta þeim á ströndinni fyrir sumarið.

Á föstudagskvöldinu var svo komið að heimapartíum með Hawaii ívafi. Okkur Íslendingunum var öllum skipt upp í sitthvor partíin. Ég skemmti mér feykivel í mínu partíi og kynntist fólki sem ég á svo sannarlega eftir að halda sambandi við. Eftir góðan mat og nokkra bjóra þá var stillt upp í bearpong og þar sem að engar borðtenniskúlur voru til staðar þá bjuggum við til bolta úr álpappír. Það svínvirkaði og voru margir orðnir vel hressir þegar að loks var haldið á ball. Eftir heimapartíið þá héldum við í Arena Nord þar sem hljómsveitin Tennis spilaði langt fram eftir nóttu. Feykiskemmtilegt band og var mikið dansað og teiblað. Þeir allra hörðustu enduðu svo á klúbbarölti fram eftir morgni.

Á laugardeginum var svo slappað af og þess notið í botn að vera í sólinni og menn voru ekkert að stressa sig yfir fundarhöldum hjá dönunum. Um kvöldið var svo haldið á galakvöldverð í Arena Nord þar ekkert var til sparað til að gera þetta sem glæsilegast. Góður matur og frábær félagsskapur. Eftir nokkrar myndartökur og vel valin spor á dansgólfinu þá hélt ég heim á hotel þar sem við Christoph von Maltzahn náðum að horfa á úrslit Eurovision. Keppni um last man standing þurfti að bíða betri tíma þar sem ferðinni var heitið til Kaupmannahafnar snemma morgunin eftir.

Þessi ferð var frábær í alla staði og ég mæli eindregið með því við alla nýja teiblara að nýta þau tækifæri sem standa þeim til boða og stökkva sem fyrst í heimsókn á AGM á norðurlöndunum til að fá tilfinningu fyrir erlenda starfinu. Ég er hæstánægður með þessa ferð og stefni á að vera virkur í RT ferðalögum á komandi árum.

Kveðja,
Axel RT5

Be the first to comment

Leave a Reply

Support